Færri kjósa Ísland

Kona snýr baki við fossinum fræga rétt eins og einhverjir …
Kona snýr baki við fossinum fræga rétt eins og einhverjir ferðamenn hafa nú gert við land elds og ísa. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta virkar eins og svona 20-30 prósent fækkun,“ segir Svavar Njarðarson, eigandi Gullfosskaffis, spurður hvort hann finni fyrir því að ferðamönnum hafi fækkað á svæðinu.

Rúmlega 13% færri lögðu leið sína um Gullna hringinn í maí og júní á þessu ári en árið áður, samkvæmt tölum frá Vegagerðinni. Svavar segir að íslenskum ferðamönnum hafi þó fjölgað lítillega. „Það er mjög ánægjulegt.“

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels sem jafnframt starfrækja Hótel Eddu og fleiri hótel, treystir einmitt á að Íslendingar muni leggja land undir fót í auknum mæli þetta sumarið.

Samdráttur hefur orðið í bókunum hjá báðum keðjum, helst á landsbyggðinni, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

„Við vonumst auðvitað til þess að allir noti tækifærið og heimsæki landið eitthvað. Við tökum mið af bæði veðurspá og nýtingu okkar hótela á landsbyggðinni í verðlagningu og erum dugleg við að setja út góð verðtilboð á netið þegar svo ber undir.“

Matthildur Philippusdóttir, eigandi ferðaskrifstofunnar Fjallabaks, finnur einnig fyrir samdrætti.

„Það eru eitthvað færri bókanir og ég held að ferðamönnum hafi fækkað svolítið að Fjallabaki. Í Landmannahelli er til dæmis venjulega brjálæðislega margt fólk en þar er engin sérstök örtröð núna,“ segir hún.

Hjá ferðaþjónustunni á Jökulsárlóni hefur ferðamönnum fækkað að meðaltali um 40 daglega en rekstrarstjóri fyrirtækisins segir að það sé lítið í stóra samhenginu enda heimsæki um 1.100 manns ferðaþjónustuna daglega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert