Síðasti leggurinn var skelfilegur

Siglingakappinn Andrew Bedwell sigldi skútu sinni, 241 Blue One, í heimahöfn í Whitehaven á Vestur-Englandi á fimmtudaginn var. Þar með lauk áheitasiglingu hans til Ísland, umhverfis landið og aftur heim. Ferðina fór hann til að safna fé til kaupa á útileiktækjum fyrir grunnskólann sem dóttir hans gengur í.

Siglingin var alls um 2.400 sjómílna (sm) löng (4.445 km) og var Andrew 19 daga á sjó. Hann fór að meðaltali 126 sm (233 km) á sólarhring og mesti hraði var 16,7 sjómílur á klukkustund.

Einn um borð í litlu fleyi

Skútan er aðeins 6,5 metra löng og einmastra. Andrew var einn um borð. Þröng aðstaða er til að matast og hvílast.
Þegar hann var kominn langleiðina í kringum landið fékk Andrew boð um að móðir hans væri orðin alvarlega veik. Hann lagði skútunni í Sandgerði, flaug heim og náði að hitta mömmu sína áður en hún lést. Að lokinni jarðarförinni sneri hann aftur á miðvikudag í síðustu viku og hóf heimsiglinguna.

Andrew, sem er 45 ára gamall, kvaðst hafa verið mjög þreyttur eftir heimsiglinguna þegar rætt var við hann á föstudag. Hann sagði að sterkt kaffi hefði hjálpað sér að komast síðasta spölinn. Þegar hann lagðist útaf í rúmið sitt slokknaði alveg á honum.


Öldurnar voru óútreiknanlegar

„Síðasti leggurinn var skelfilegur. Öldurnar voru risastórar og sjólagið alveg óútreiknanlegt eins og gerist eftir að vindáttin breytist. Öldurnar koma úr öllum áttum sem getur verið hættulegt,“ sagði Andrew. Hann þurfti að klifra upp í mastrið á miðju Atlantshafinu til að gera við bilun. Eitthvað sem hann sagðist bókstaflega hata að gera.

Öldurnar voru oft stórar á Atlantshafinu. Þegar aðstæður voru erfiðastar …
Öldurnar voru oft stórar á Atlantshafinu. Þegar aðstæður voru erfiðastar gaf Andrew sér ekki tíma til að taka ljósmyndir. Ljósmynd/Andrew Bedwell

„Ég hafði óskabyr allt þar til ég var kominn upp að Norður-Írlandi. Þá datt vindurinn alveg niður. Á hafinu fór ég á allt að 16,7 sjómílna hraða á klukkustund. Það er hröð sigling. Einu sinni fór ég 100 sjómílur á níu klukkustundum, sem er ótrúlega góður gangur.“

Þoka byrgði Andrew sýn þegar hann sigldi norður fyrir land frá Neskaupstað og vestur um. „Mig langaði að taka myndir fyrir börnin í skóla dóttur minnar, en þokan var svo þykk að ég hefði líklega ekki mátt vera meira en 30 metra frá landi til að sjá eitthvað!“

Skútan er lítil og lítið rými til að matast og …
Skútan er lítil og lítið rými til að matast og hvílast eins og sjá má. Ljósmynd/Andrew Bedwell

Andrew naut aðstoðar félaga sinna í Englandi sem lágu yfir veðurkortum og -spám og leiðbeindu honum þangað sem byrinn var bestur hverju sinni. Þess vegna fór hann djúpt út af Norðurlandi áður en hann beygði suður með landinu.

Söfnunin gekk vonum framar

Andrew sagði áheitasöfnunina hafa gengið vonum framar. Áður en hann lagði af stað voru komin áheit sem nægðu til að kaupa járnbrautalest úr endurunnu plasti fyrir börnin að leika sér í. Þegar hann kom heim voru í sjóðnum 1.500 pund umfram markmiðið sem stefnt var að og því hægt að kaupa fleiri leiktæki.

Andrew fór í siglinguna til að safna áheitum til kaupa …
Andrew fór í siglinguna til að safna áheitum til kaupa á leiktækjum fyrir skólann sem dóttir hans sækir. Nú þegar er búið að kaupa leiktæki og fleiri eru væntanleg. Ljósmynd/Andrew Bedwell

Heilmikið sér á skútunni eftir siglinguna. Hún verður tekin á land til viðgerðar. Framsiglustag bilaði, stýrisfestingarnar losnuðu og fleira gekk úr lagi. Andrew hefur unnið við smíði kappsiglingabáta, viðgerðir og seglasaum svo hann er á heimavelli þegar kemur að því að laga skútuna. En hefur hann áform um næstu ævintýraferð?

„Já, hún verður ekki á sjó heldur á landi. Ég ætla að fara með dóttur minni í útilegu á fjallstindi. Við sofum ekki í tjaldi heldur með hlíf (bivouac) untan um svefnpokana,“ sagði Andrew.

Gestrisni og hjálpsemi

„Íslendingar sýndu mér svo mikla gestrisni og hjálpsemi. Ég sagði við konuna mína að mig langi að fara með fjölskylduna og ferðast um landið. Við hjónin fórum í brúðkaupsferð til Íslands og nú langar okkur að snúa aftur með dóttur okkar,“ sagði Andrew Bedwell.

Siglingasíða Andrews Bedwell á Facebook

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert