Friðlýsing er mikilvæg

Látrabjarg.
Látrabjarg. mbl.is/Árni Sæberg

„Látrabjarg þarf vernd því álag á svæðið er mikið,“ segir Edda Kristín Eiríksdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. Hún sinnir landvörslu og öðrum verkefnum á sunnanverðum Vestfjörðum, meðal annars við Látrabjarg sem nú stendur til að friðlýsa.

Frestur til að skila inn umsögum þar rennur út þann 18. júlí og þarf samþykki allra landeigenda svo friðlýsing, sem umhverfisráðherra undirritar, nái í gegn. Svæðið sem er undir í tillögunni nær frá Bjargtöngum og þaðan alllangt inn til austurs að þeim stað sem heitir Bæjarbjarg.

Stærsta fuglabjarg Evrópu

Látrabjarg er stærsta fuglabjarg Evrópu og hvergi á landinu verpa jafn margir sjófuglar, til dæmis tegundir eins og álka og lundi sem eru á válista. Einnig þykir vera eftirtektarverð flóra og jarðfræði á þessu svæði, hvar aukinheldur má finna ýmsar menningarminjar.

„Svæðið hefur mikið aðdráttarafl fyrir gesti sem heimsækja Vestfirði og mikilvægt er að stýra þeirri umferð með verndarráðstöfunum,“ segir á vef Umhverfisstofnunar.

Friðlýsing Látrabjargs og nálægra slóða er mikilvæg, segir Edda Kristín. Það helst í hendur við að setja þurfi stjórnar- og verndaráætlun fyrir svæðið og vinna deiliskipulag þess. Í framhaldinu verður svo farið í framkvæmdir, svo sem stígagerð. „Við skynjum jákvæðar undirtektir fyrir friðlýsingu og höfum hvatt landeigendur hér – svo og alla aðra – til þess að senda inn umsagnir,“ segir Edda Kristín.

Þörf á mótvægi

„Af hálfu sveitarfélagsins er mikill vilji til þess að friðlýsing verði að veruleika,“ segir Rebekka Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Vesturbyggðar. „Margir koma að Látrabjargi og álag á svæðið er mikið. Því er þörf á mótvægisaðgerðum og slík verkefni styðjum við heilshugar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert