Aðgerðinni ítrekað frestað

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Reynir Guðmundsson, sem liggur á hjarta- og lungnadeild Landspítalans, hefur sent opið bréf til stjórnmálamanna, þar á meðal heilbrigðisráðherra. Þar óskar hann eftir því að farið verði yfir stöðuna sem er uppi á gjörgæsludeild.

Reynir segist í bréfinu hafa beðið eftir hjartaaðgerð frá því í byrjun júní. Hann segist margoft hafa verið kominn með aðgerðardag en aðgerðinni hafi verið frestað. „Þetta er ítrekað að gerast og er farið að hafa mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu undirritaðs og jafnframt á aðstandendur sem hafa óneitanlega áhyggjur af ástandinu,“ segir hann.

Hann segir ástæðuna fyrir frestuninni vera að gjörgæslan getur ekki tekið við honum að aðgerð lokinni vegna skorts á rúmum. Einnig sé skortur á sérhæfðum hjúkrunarfræðingum á gjörgæslu, meðal annars vegna sumarleyfa. Hann segir fjóra aðra sjúklinga á deildinni vera í sömu sporum.

„Undirritaður hefur átt samtal við frábært fagfólk deildarinnar og velt þessari stöðu fyrir sér. Í þessum samtölum hefur það komið fram frá fagfólki að rúm á gjörgæslu séu eingöngu helmingur af því sem þau ættu að vera miðað við þann fólksfjölda sem býr á Íslandi. Samkvæmt fagfólki þá er ekki tekið tillit til þess fjölda ferðamanna sem er í landinu hverju sinni,“ segir hann og bætir við að rýmin á gjörgæsludeild séu aðeins sex talsins.

Hann segir stöðuna vera bæði ólíðandi og hættulega og veltir fyrir sér kostnaði samfélagsins við að hafa fimm manneskjur í biðstöðu á hjarta- og lungnadeild sem gætu verið í vinnu og skilað sínu til samfélagsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert