Margir staðir hefðu verið verri

Olíubíllinn var fluttur ónýtur til Reykjavíkur.
Olíubíllinn var fluttur ónýtur til Reykjavíkur.

Afleiðingar slyssins, sem varð á Öxnadalsheiði í gær þegar olíubíll með 30.000 lítra af skipagasolíu valt út af veginum, hefðu orðið mun alvarlegri hefði slysið orðið nær vatnsverndarsvæði. 

Þetta segir Sigurjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra. Telur hann mikilvægt að olíuflutningar í nánd við vatnsverndarsvæði verði yfirfarnir. 

Sigurjón telur líklegt að hægt verði að hreinsa olíuna af slysstað að mestu leyti á næstu vikum. 

„Þetta er ekki eitthvað sem mun hafa langtímaafleiðingar. Það á náttúrulega eftir að fara yfir ána og svoleiðis en ég reikna ekki með því að þetta sé í það miklu magni að það sé ekki hægt að ráða við þetta,“ segir Sigurjón. 

Olíu er hér dælt úr hreinsitjörninni sem var sett upp …
Olíu er hér dælt úr hreinsitjörninni sem var sett upp eftir að olíubíllinn valt á Öxnadalsheiðinni. Ljósmynd/Aðsend

„Það var sem sagt sett upp hreinsitjörn. Það var enginn jarðvegur fjarlægður vegna þess að hann var eiginlega bara möl, grjót og urð. Þannig að það var bara stíflað fyrir vatnið sem rennur frá slysstaðnum og verið er að koma upp búnaði til að fleyta ofan af tjörninni, sem var búin til, olíunni sem flýtur ofan á. 

„Það voru grafnar þarna holur í gær og þá kemur í ljós að þetta er bara stórgrýti og möl sem olían lekur þá strax úr. Þá var ekki til neins að vera að flytja á milli jarðveg einhverja hundruð kílómetra því olían situr ekki í jarðveginum heldur seytlar bara í gegnum hann.“

Sigurjón segir eitthvað vera um búfénað á svæðinu og ekki sé ólíklegt að einhver náttúruspjöll hafi orðið af slysinu. Það verði þó að koma í ljós síðar þegar sér fyrir endann á hreinsunaraðgerðum. 

Fara þurfi yfir flutninga í grennd við vatnsverndarsvæði 

Sigurjón segir það uggandi að hugsa til þess hvernig farið hefði ef slysið hefði orðið nær vatnsuppsprettu. 

„Þetta er held ég annað svona stóra slysið með olíubíl sem verður hérna í Skagafirði. Þetta virðist vera allt of oft sem þessir olíubílar lenda í svona. Það eru ákveðin svæði sem eru afar viðkvæm. Ef svona olíubíll færi út af við Blönduós eða þar sem vatnstökusvæðið er á Akureyri eða víðar þar sem eru vatnsverndarsvæði, það hefði verið mikið verra. 

„Það þarf að fara yfir þessi mál, hvernig þessi svæði eru í stakk búin til að hreinsast, hvort hægt væri að bregðast við eða hvort vatnsbólið myndi einfaldlega eyðileggjast,“ segir Sigurjón. „Þetta er eitthvað sem þarf að fara rækilega yfir.“

Sigurjón segist ekki geta sagt til um hvað valdi slysum sem þessum á svæðinu.  

„Vegirnir eru sums staðar orðnir lélegir, það er búið að fækka birgðastöðvunum þannig að þetta eru orðnir meiri flutningar og auk þess er bara einfaldlega meiri umferð á vegunum. En ég veit ekkert hvað olli þessu slysi,“ segir Sigurjón og bætir við að það sé ljóst í hans huga að skoða þurfi sérstaklega olíuflutninga í grennd við vatnsverndarsvæði. 

„Það eru náttúrulega margir staðir þar sem þetta hefði verið verra, hvar sem vatnsverndarsvæði eru. Það þarf bara að fara betur yfir þessi svæði ef svona slys eru eitthvað sem má búast við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert