Vilja meira flug þrátt fyrir losun

Í grænbók um stefnu í flugmálum er lýst áhyggjum af …
Í grænbók um stefnu í flugmálum er lýst áhyggjum af loftslagsmálum og hvatt til áframhaldandi vaxtar í flugi. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Í drögum að grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi, sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda í gær, segja höfundar að „eitt mikilvægasta mál okkar tíma eru breytingar í loftslagsmálum“. Leggja þó höfundar til að tryggður verði áframhaldandi vöxtur í flugi.

Fram kemur að losun gróðurhúsalofttegunda jókst um 13% milli áranna 2016 og 2017 og að losun koltvísýrings, metans, brennisteinsoxíðs og köfnunarefnisoxíðs hafi aukist um 158% á milli áranna 2008 og 2018. Jafnframt er bent á að hlutfall flugs af heildarlosun Íslands sé 6,5%.

Lausnin „óraunhæf í bráð“

Þá segir að mikilvægt sé „að opinberir aðilar og flugrekendur marki sér skýra stefnu í umhverfismálum flugsamgangna. Bæði er það mikilvægt fyrir flug sem atvinnugrein en ekki síður vegna þess að mikilvægt er að leggja sitt af mörkum til að tryggja framtíð okkar á jörðinni.“

Binda höfundar vonir við þróun flugvéla sem knúnar eru með rafmagni og að lögð verði áhersla á að Ísland verði fremst í orkuskiptum í flugi. Hins vegar er talið „óraunhæft í bráð að tala um umfangsmikið millilandaflug með rafmagnsflugvélum en tækifærin á næstu árum liggja í innanlands-, almanna- og kennsluflugi.“

Þó er talið að breytt hugarfar almennings vegna viðhorfs til loftslagsmála sé líklegra til þess að hafa áhrif á ferðamynstur almennings. Jafnframt er því lýst að losunarheimildir geti haft hamlandi áhrif á vöxt.

Áframhaldandi vöxtur

Fram kemur í grænbókinni að spá Eurocontrol um þróun í aukningu flugferða til ársins 2040 verði að meðaltali 1,9% á ári og að spá Airbus sé að vöxtur flugs í Evrópu verði 2,6% á ári til 2037, auk þess sem vöxtur verði 2,8% á ári á sama tímabili yfir Norður-Atlantshaf.

Leggja höfundar til að „vöxtur alþjóðaflugs á Íslandi verði að minnsta kosti sambærilegur og vöxtur í alþjóðaflugi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert