„Bendir til örvæntingar ráðherrans“

Sigbjørn Gjelsvik, þingmaður Miðflokksins í Noregi, segir Guðlaug Þór Þórðarson …
Sigbjørn Gjelsvik, þingmaður Miðflokksins í Noregi, segir Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra örvæntingafullan. Ljósmynd/Norski Miðflokkurinn

„Þetta bendir til örvæntingar íslenska utanríkisráðherrans. Við höfum átt í góðum samskiptum við vini okkar á Íslandi og verið boðið í heimsókn bæði af stjórnmálamönnum og öðrum,“ segir Sigbjørn Gjelsvik, þingmaður norska Miðflokksins (Senterpertiet), í samtali við mbl.is um ásakanir Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra í kvöldfréttum RÚV í gær.

Sagði Guðlaugur Þór að Nei til EU (samtök gegn aðild að Evrópusambandinu) í Noregi og norski Miðflokkurinn hefðu átt í óeðlilegum afskiptum af umræðu á Íslandi um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Gjelsvik segist hafa kynnt fyrir Íslendingum álitamál úr umræðunni í Noregi um innleiðingu orkupakkans.

„Við höfum tekið eftir því að ríkisstjórn Noregs hefur aðeins kynnt hluta af umræðunni í Noregi, sérstaklega að það hafi verið meirihluti á Stórþinginu fyrir málinu. Þessari kraftmiklu andstöðu meðal norsku þjóðarinnar, í norsku verkalýðshreyfingunni og innan fleiri stjórnmálaflokka hafa þeir reynt að hylja.“

Kemur gjarnan aftur til Íslands

Það eru margir á Íslandi sem hafa óskað eftir því að fá upplýsingar um sjónarmið okkar sem höfum verið upptekin af sjálfræði þjóðarinnar hvað varðar orku- og iðnaðarmál. Síðan verður Ísland að taka sjálfstæða ákvörðun. Því skiptum við okkur af sjálfsögðu ekki af,“ útskýrir þingmaðurinn.

Hann segist ekki taka ásakanir Guðlaugs Þórs til sín. „Ég tek þessu með mikilli ró. Ég hef verið á fundi með íslenska utanríkisráðherranum síðast í Liechtenstein í sumar, þar tjáði hann sambærileg sjónarmið.

Ég hef verið á Íslandi og hitt góða samstarfsfélaga áður og kem gjarnan aftur til þess að kynna mín sjónarmið um þriðja orkupakkann, en það er Íslands að ákveða hvað skal gera og ekki gefa eftir þrýstingi norskra stjórnmálamanna eða Evrópusambandinu – standa vörð um hagsmuni sína,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert