Segir borgina taka afstöðu með verkinu

Framkvæmdir á Hverfisgötu hófust í maí.
Framkvæmdir á Hverfisgötu hófust í maí. mbl.is/RAX

Ásmundur Helgason, eigandi Gráa kattarins, furðar sig á framferði borgarinnar í tengslum við framkvæmdir á Hverfisgötu. Segir hann borgina ekki taka afstöðu með fyrirtækjum á svæðinu sem hafa mörg hver átt erfitt sumar vegna framkvæmdanna. 

Ásmundur var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Auðheyrt var að hann var ekki ánægður með framkvæmdirnar og hvernig að þeim hefur verið staðið. 

„Maður áttar sig á því að það þarf að gera svona hluti. En þá skiptir náttúrulega máli hvernig þeir eru gerðir, á hvaða tíma og hversu langan tíma það tekur. Það finnst mér ámælisvert. Það er hægt að gagnrýna það hversu langan tíma, á hvaða tíma ársins þetta er gert og svo framvegis. Mér finnst vera illa staðið að þessu að mörgu leyti,“ sagði hann. 

„Það var hamrað í klettinn í alveg stanslaust í fimm til sex vikur frá níu til sex allan daginn. Ég vorkenni hótelum og gistiheimilum við þennan hluta götunnar eiginlega meira en sjálfum mér. Fólk hefur komið inn hjá okkur og farið út aftur út af hávaðanum,“ segir Ásmundur. Tekur hann sem dæmi gistihús við götuna sem hafði einungis fengið 5 stjörnu umsagnir fram að framkvæmdum. Það hafi nú breyst vegna láta og lélegs aðgengis. 

Tefjast um nokkra daga

Framkvæmdir á milli Ingólfsstrætis og Smiðjustígs hófust um miðjan maí og á þeim að ljúka í september. Fréttablaðið greindi frá því í dag að framkvæmdirnar muni tefjast um nokkra daga vegna manneklu um verslunarmannahelgina og þar sem Safnahúsið gaf upp vitlausan hæðarpunkt á brunni svo rífa þarf upp nýlagða frárennslislögn. 

Ásmundur telur borgina geta gert betur í samskiptum sínum við fyrirtæki og þjónustuaðila sem hafa orðið fyrir tjóni vegna framkvæmdanna. 

„Þremur, fjórum dögum, kannski fimm virkum dögum áður en þeir fóru að rífa upp götuna, þá kom bréf í pósti frá borginni um að til stæði að fara í þessar framkvæmdir og að gatan yrði lokuð fram í september,“ segir Ásmundur, en fram að því hafði hann engin svör fengið hjá borginni um framkvæmdirnar. 

„Það er margt í þessu sem mér finnst ótrúlega lélegt hjá borginni. Það er ótrúlegt sleifarlag í þessu öllu saman. Það sem er kannski mest svekkjandi er að viðmótið hjá borginni, bæði pólitíkusum og embættismönnum og hjá Veitum, er að það er alltaf afstaða tekin með verkinu í staðinn fyrir að taka einhverja afstöðu, reyna að sjá þetta frá okkar sjónarhorni. Það er engin tilraun gerð til þess. 

„Borgin má alveg taka afstöðu með okkur annað slagið, sem verðum fyrir þessu. Það er ekki nóg gert til þess að hafa gott aðgengi að fyrirtækjum.“

Mannekla um verslunarmannahelgi

Þá furðar Ásmundur sig á því að ekkert hafi verið unnið að framkvæmdunum um og í kringum verslunarmannahelgina. 

„Svo þessi skýring að það sé ekki hægt að finna fólk til að vinna um verslunarmannahelgi, maður hefur bara aldrei vitað aðra eins vitleysu. Það var opið hjá mér alla verslunarmannahelgina, ég gat alveg fundið fólk.“

Ásmundur segir framkvæmdirnar án efa hafa áhrif á hans rekstur. Hann lætur þó ekki deigan síga. 

„Það eru náttúrulega bara færri gestir en síðustu ár. Kötturinn hefur níu líf þannig að við náum að lifa þetta af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert