Ekkert smá bras að ná bílnum niður

Aðstoðarframkvæmdastjóri bílaleigunnar segir óhappið „furðuratvik.“
Aðstoðarframkvæmdastjóri bílaleigunnar segir óhappið „furðuratvik.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

„Maður er búinn að sjá margt en þetta er með því fyndnasta sem ég hef séð, þó þetta sé talsvert tjón fyrir fyrirtækið. Kostnaðurinn leggst nær eingöngu á okkur því miður,“ segir Sævar Sævarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Blue Car Rental, í samtali við mbl.is um sérstakt óhapp í morgun þegar bíl bílaleigunnar var ekið ofan á kyrrstæðan bíl á Grandagarði.

Átti atvikið sér stað skömmu eftir að viðskiptavinir bílaleigunnar tóku við bílnum.

„Tildrögin í þessu tilviki eru kannski einsdæmi, en þetta nær ekki metinu í fjarlægð frá bílaleigunni frá 2015 eða 2016 þegar óhapp varð eftir 110 metra. Þá var það aðili sem keyrði Yaris á kyrrstæða Porsche við hliðina á bílaleigunni. Þetta er samt algjört einsdæmi, þetta er bara furðuatvik sýnist mér,“ segir Sævar.

Spurður hvort það sé algengt að viðskiptavinir lendi í slíkum óhöppum skammt frá lóð bílaleigunnar, segir hann svo ekki vera. „Nei, það er ekki algengt. Það gerist kannski einu sinni á ári. Kannski verða stundum einhver nudd á bílastæðinu þegar er mikið af kúnnum að sækja á sama tíma, en ekki svona.“

Sævar segir misjafnt hvert framhaldið sé þegar slík tjón verða. „Kúnnarnir eru með mismunandi tryggingar og svo tekur við skoðun á bílnum, auk trygginga viðkomandi kúnna. Við þjónustum kúnnana okkar og óhöppin gerast, þannig að þeir fá undir venjulegum kringumstæðum nýjan bíl.“

Hann tekur fram að gengið sé úr skugga um að þeir sem taka bíl á leigu séu með ökuskírteini og séu hæfir til aksturs.

Mikið bras að ná bílnum niður

„Í þessu tilviki fær viðkomandi kúnni nýjan bíl og við metum síðan umrætt tjón. Þetta tekur smá tíma, það þarf að koma aðili til þess að færa bílinn frá fyrir okkur. […] Það þurfti að kalla einhvern aukaaðila til þarna því þetta var ekkert smá bras að ná bílnum niður,“ segir hann og hlær.

„Ég er ekki búinn að heyra í stöðvastjóranum í Reykjavík, en ég hugsa að kúnninn sé bara kominn á nýjan bíl og farin að njóta náttúru Íslands og að njóta alls þess sem Ísland hefur að bjóða,“ bætir hann við

Eru bundnar vonir við að það sem eftir er af ferðalagi kúnnans verði áfallalaust?

„Já ég geri ráð fyrir því að fall sé fararheill.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert