Skortur á hjúkrunarfræðingum stóra vandamálið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Vandi bráðamóttöku Landspítalans snýst annars vegar um útskriftarvanda og hins vegar mönnunarvanda. Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í svari við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Ásmundur sagði ljóst að mikill þungi væri í starfinu. Þrátt fyrir milljarðaaukningu til heilbrigðiskerfisins á undanförnum árum hefði  ekki gengið að stytta biðlistana og aðstaðan á bráðadeildinni væri óviðunandi.

„Ég fór þangað sjálfur í morgun, kynnti mér stöðuna og hitti yfirmenn sem sögðu mér frá því hvar skórinn kreppir helst. Það er fráflæðisvandi sem er sífellt til vandræða. Á Landspítalanum eru nú þegar lokuð 40 hjúkrunarrými sem jafngilda hjúkrunarrýmum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja,“ sagði Ásmundur og áfram:

„Þetta er fyrst og fremst vandamálið og að öðru leyti skortur á hjúkrunarfræðingum. Það eru miklar áhyggjur af því að starfskjör hjúkrunarfræðinga verði skert frá því sem nú er þegar við þurfum að fara aðrar leiðir og reyndar þyrftum við að fara þá leið að fá þjóðarsátt um að gera starf hjúkrunarfræðinga meira aðlaðandi, bæði í launum og starfskjörum.“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur benti á að á Norðurlöndum væri bráðaþjónusta veitt á um 6–8 klukkustundum. Þessa dagana væri sá tími 22 klukkustundir hér á landi eða fjórfalt lengri tími. „Við þurfum að taka okkur á í því máli.“ Leggja þyrfti áherslu á vandann er sneri að hjúkrunarfræðingunum. „Ég held að vandinn sé reyndar á heimsmælikvarða, svo mikill er hann. Við þurfum að einblína á þann vanda og gera allt til þess að leysa hann vegna þess að það er það sem mun bæta líðan ótrúlega margra Íslendinga. “

Svandís sagði að Landlæknir hefði gert úttekt fyrir ári í þessum efnum og gert tillögur að úrbótum. „Við þurfum að fylgja því eftir hvort eitthvað hafi verið brugðist við. Það sem stóð upp á ráðuneytið var kannski fyrst og fremst að opna fleiri hjúkrunarrými og opna sjúkrahótel. Það höfum við gert síðan í desember. Við höfum nú þegar bætt við 40 hjúkrunarrýmum og opnað sjúkrahótelið sem hvort tveggja hefur með einhverjum hætti létt á fráflæðisvandanum. Útskriftarvandinn er enn til staðar og ekki síður þarf að takast á við mönnunarvandann og þar höfum við gripið til tiltekinna aðgerða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert