„Algjörlega nýr veruleiki“

Bankinn tilkynnti í morgun um skipulagsbreytingar og fækkun starfsfólks um …
Bankinn tilkynnti í morgun um skipulagsbreytingar og fækkun starfsfólks um 12% eða um hundrað manns. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er auðvitað skelfilegt fyrir þá starfsmenn sem eru að missa lífsviðurværi sitt. Margir eru búnir að starfa lengi hjá þessum banka og forverum hans,“ segir Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, um uppsagnir í Arion banka.

Friðbert segir þetta líklega stærstu hópuppsögn fjármálafyrirtækis frá hruni, en um 700 starfsmönnum viðskiptabankanna var sagt upp á einu bretti árið 2008.

Búið að taka frá öll fundaherbergi fyrir hádegi

„Þeir sem eru elstir í hópnum eru reyndar að fara beint á eftirlaun og svo eru inni í þessari tölu líka þau sem bankinn hefur verið að semja við undanfarna daga eins og við höfum lesið um í fjölmiðlum. Skelfilegast er þetta auðvitað fyrir þá starfsmenn sem verið er að kalla til í dag og lenda í þessum uppsögnum,“ segir Friðbert, en sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is hafði þegar í gær kvisast út á meðal starfs­fólks bank­ans að til stæði að ráðast í upp­sagn­irn­ar í dag, en þá var búið að taka frá öll fund­ar­her­bergi í höfuðstöðvun­um fyr­ir há­degi und­ir einka­fundi,

Þá segir Friðbert að óvenjulegt hafi verið að SSF hafi ekki verið tilkynnt um hópuppsögnina eins og tíðkist. „Við fengum að vita eftir lokun bankans í gær að það myndi koma tilkynning bankans til kauphallar og vinnumálastofnunar kl. 9 í morgun. Annað höfðum við ekki fengið að vita um málið.“

Í lögum um hópuppsagnir segir að atvinnurekandi skuli svo fljótt sem auðið er hafa samráð við trúnaðarmann stéttarfélaga eða, ef ekki hafi verið kjörinn trúnaðarmaður, við annan fulltrúa starfsmanna. „Fulltrúi starfsmanna á staðnum átti fund með mannauðsstjóranum í gær og segjast þeir því hafa uppfyllt lögin, en þetta er þá spurning um túlkun á lögunum,“ segir Friðbert.

Kanna hvort lög um hópsagnir gildi ekki um fyrirtæki í kauphöll

„Þeir bera það líka fyrir sig að lög um hópuppsagnir geti ekki átt við um fyrirtæki sem eru í kauphöllinni. Þetta er algjörlega nýr veruleiki og gerir það að verkum, ef rétt reynist, að þessi lög eru algjörlega tilgangslaus öllum fyrirtækjum sem skráð eru á markaði. Við munum að sjálfsögðu kanna þetta,“ segir Friðbert.

Friðbert Traustason.
Friðbert Traustason. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Þá segir hann einkennilegt að bankinn hafi borið til baka fréttaflutning Mannlífs frá síðustu viku um skipulagsbreytingar og uppsagnir. 

„Ég er mjög undrandi á þeirri frétt og bankinn hlýtur að þurfa að svara því hver var að leka þessum upplýsingum. Það er alveg skelfilegt fyrir starfsmenn að þurfa að bíða í þessari óvissu eftir að hafa heyrt þetta í næstum heila viku.“

Hópuppsögnum beitt hjá fyrirtækjum í taprekstri

„Þá segir í lögum um hópuppsagnir að leitað skuli allra leiða til að fækka uppsögnum. Yfirleitt er hópuppsögnum líka beitt í fyrirtækjum sem standa illa og hafa verið í taprekstri. Arion banki er langt frá því að vera í taprekstri. Hann vill bara hagnast meira.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert