Ný flýti- og umferðargjöld komi til á næstu árum

Ný flýti- og umferðargjöld verða tekin upp samkvæmt markmiðum samkomulagsins. …
Ný flýti- og umferðargjöld verða tekin upp samkvæmt markmiðum samkomulagsins. Nákvæm útfærsla þeirra hefur ekki verið kynnt. mbl.is/​Hari

Með samkomulagi ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er lagður grunnur að því að innheimt verði svonefnd flýti- og umferðargjöld sem meðal annars eiga að koma í staðinn fyrir bensín- og olíugjöld sem hafa lengi verið innheimt til að standa undir uppbyggingu samgöngumannvirkja, en með orkuskiptum í samgöngum er fyrirséð að sá tekjupóstur muni lækka talsvert. 

Nákvæm útfærsla þeirra hefur þó ekki verið kynnt enn, en mbl.is tekur hér saman það sem finna má á heimasíðunni samgongusattmali.is sem sett var í loftið eftir kynningu á sáttmálanum fyrr í dag.

Umferðarálagi dreift og nýting innviða bætt 

Þar kemur meðal annars fram að flýti- og umferðargjöld yrðu liður í breyttri gjaldtöku ríkisins og að umferðargjöldin yrðu hluti af endurskoðuðu fjármögnunarkerfi fyrir samgöngur í landinu öllu. Hugmyndin er að nota gjöldin til að dreifa umferðarálagi til að bæta nýtingu núverandi samgönguinnviða.

Ekki ljóst nákvæmlega hvenær gjöldin verða tekin upp

Fram kemur að gjöldin yrðu tekin upp þegar framkvæmdir væru komnar vel af stað og sýnilegar íbúum höfuðborgarsvæðisins. Fram að því verður unnið að endurskoðun á fjármögnun samgöngukerfisins. Hvað þessi tímarammi þýðir nákvæmlega en gert er ráð fyrir að fyrstu framkvæmdir samningsins fari í gang á þessu ári og klárast á næsta ári. Þá eru fleiri verkefni sem eiga að klárast fyrir árslok 2021, meðal annars lokakafli Arnarnesvegar sem tengir efri byggðir Kópavogs við Breiðholtsbraut. Sama ár á að hefjast handa við fyrstu hluta borgarlínunnar. Síðustu verkefni samkomulagsins fara í gang í kringum 2030 samkvæmt áætluninni og klárast 2033.

Tímarammi samkomulagsins er til 2033 og kemur fram að markmiðið sé að allri fjármögnun og mögulegri gjaldtöku vegna framkvæmdanna ljúki á samningstímanum. „Slíkt er þó háð framkvæmdahraða og þeirri lántöku sem þarf að fara í vegna framkvæmdanna,” segir á vef samkomulagsins.

Einnig er tekið fram að flýti- og umferðargjöld muni ekki hafa áhrif á verð í almenningssamgöngur.

Að lokum segir að áform séu uppi um að taka upp sértæka gjaldtöku víðar á landinu til að fjármagna stærri samgönguframkvæmdir og rekstur jarðganga. Dæmi um þetta eru tvöföldun Hvalfjarðarganga, Sundabraut, brú yfir Ölfusá, brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi ásamt láglendisvegi um Mýrdal og jarðgöng í gegnum Reynisfjall.

Samkomulag ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á …
Samkomulag ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára var undirritað í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert