„Launin okkar sem hurfu“

Vopnafjörður.
Vopnafjörður.

„Eru þeir að óttast sextuga konu, ófaglærða á lúsalaunum?“ segir Sigríður Dóra Sverrisdóttir, trúnaðarmaður á leikskólanum Brekkubæ í Vopnafjarðarhreppi. Sigríður varð þess vör haustið 2016 að Vopnafjarðarhreppur hafði þá í rúman áratug greitt of lágt mótframlag í lífeyrissjóðsgreiðslum hennar og hóps annarra starfsmanna. 

Árið 2005 voru þau mistök gerð á skrifstofu hreppsins að mótframlag sveitarfélagsins í lífeyrissjóðsgreiðslum ákveðins hóps starfsmanna, var ekki hækkað í samræmi við kjarasamninga. Í kjölfar þess að umrædd mistök uppgötvuðust gerði lífeyrissjóðurinn Stapi kröfu á hreppinn um greiðslu. 

Lífeyrissjóðurinn Stapi gerði kröfu um að Vopnafjarðarhreppur greiddi vangoldin gjöld tímabilsins að fullu auk 3,5% ávöxtunar, samtals um 72 milljónir króna.  Á hreppsnefndarfundi í júní á þessu ári samþykkti meirihluti hreppsnefndar að borga tæpar 44,2 milljónir króna, sem er höfuðstóll tímabilsins auk vaxta á árunum 2013 til 2016 sem munu vera ófyrndir. Ljóst er að uppæðin dugi ekki til að tryggja að staða starfsmanna hreppsins verði sú sama og ef rétt iðgjöld hefðu alltaf verið greidd. 

Kom aldrei fram á launaseðli hvert mótframlagið var 

Sigríður segist hafa orðið þess vör í lok árs 2016 að eitthvert misræmi væri á launaseðlum hennar. 

„Ég er trúnaðarmaður á vinnustaðnum mínum og var á námskeiði sem verkalýðsfélagið mitt hélt fyrir okkur trúnaðarmenn og við erum að læra að reikna út launaseðla. Ég er þarna í hóp og þau í hópnum tala alltaf um 11,5% lífeyrissjóðsgreiðslur og ég segi að það geti ekki verið, við eigum bara að hafa 8%. 

Sigríður Dóra Sverrisdóttir.
Sigríður Dóra Sverrisdóttir.

„Leiðbeinandinn heyrir þetta og segir að það geti bara ekki verið, talan hafi breyst árið 2005. Ég ætlaði að athuga þetta inn á heimabankanum mínum en næ því ekki svo það fyrsta sem ég geri þegar ég kem heim til mín er að fara handreikna út frá launaseðlinum mínum og viti menn. Alveg þangað til í fyrra kom aldrei fram hvert mótframlag Vopnafjarðarhrepps var, bara það sem við greiddum svo það hafði enginn séð þetta áður,“ segir Sigríður. 

„Mér leið mjög illa með að hafa uppgötvað þetta. Ég vissi að þetta yrði stórt mál hérna, en ég veit ekki hvort ég hefði farið út í þetta hefði ég vitað að ég myndi eyða þremur árum af lífi mínu í þetta. Þannig byrjaði þessi hryllingur.“

Þáverandi sveitarstjóri lofaði að gera allt upp

Sigríður segist hafa haft samband við stéttarfélagið Afl í kjölfarið.

„Ég leitaði ráða hjá framkvæmdastjóra Afls og hann sagðist ætla taka málið yfir og kanna það nánar. Ég var þá alveg pollróleg. Það sem ég frétti svo næst af þessu máli er þegar þáverandi sveitarstjóri mætir á fund sem Afl hafði boðað vegna málsins.

„Hann kemur hingað til að tilkynna okkur þær gleðifréttir að hreppsnefnd hefði ákveðið að gera þetta allt upp við okkur og að við ættum bara að gefa þeim tíma. Það voru allavega tuttugu vitni af þessari yfirlýsingu hans. Ég náttúrlega fagnaði þessu og þetta var mikill léttir. Ég hélt að ég væri laus við þetta mál, en það var nú aldeilis ekki þannig.“

Sigríður segist hafa upplifað mikinn sigur í upphafi árs 2018 þegar þáverandi sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps lýsti því yfir að öllum hlunnförnum starfsmönnum yrði greitt það sem þeir ættu rétt á. Gleðin varði þó ekki lengi. 

„Árið 2018 upplifðum við öll mikinn fögnuð. Sem var snarlega tekinn frá okkur. Í júní á þessu ári kemur tilkynning um að þeir hafi bara dregið þetta til baka. Ég hef reynt að fylgjast með þessu máli hjá hreppsnefndinni en þetta hefur bara verið rætt á lokuðum fundum og fært undir trúnaðarmál. Hreppurinn hefur ekki upplýst okkur á nokkurn hátt,“ segir Sigríður. 

Enginn fundur um málið fyrr en búið væri að afgreiða það

Sigríður segist vera ákaflega ósátt með að sveitarfélagið hafi ekki komið til móts við starfsmenn hreppsins sem fóru þess á leit að málið yrði kynnt á opnum fundi. Sigríður fékk þau svör þegar hún bar málið upp, að enginn fundur um málið yrði haldinn fyrr en búið væri að afgreiða það. 

„Að þeir skyldu óttast að mæta starfsfólkinu sínu sem margt er búið að vinna þarna í yfir 30 ár, finnst mér bara ótrúlegt.“

Þá segir Sigríður það vera ljóst að Stapa sé ekki um að kenna í þessu máli og segir afleitt að hreppurinn skuli bera fyrir sig tómlæti Stapa eða launþega. 

Lægst launaði hópur á landinu

Sigríður segir mistök hreppsins fyrst og fremst bitna á þeim sem raunverulega munar um þennan mismun á lífeyrissjóðsgreiðslum. Sá hópur starfsmanna sem greitt var of lágt iðgjald var ófaglærðir starfsmenn hreppsins. 

„Ég er ófaglærð. Við flokkumst þessi hópur sem erum ekki lærðir leikskólakennarar sem ófaglærðir starfsmenn. En fjandinn hafi það ég held að ég sé orðin faglærðari í þessu máli heldur en nokkurn tímann þeir sem eiga að bera ábyrgðina á því. 

Morgunblaðið birti nú grein um daginn um hvers konar launum við erum á, svokallaðir ófaglærðir starfsmenn hjá sveitarfélögum. Hagstofa gaf það út fyrir 2018 að við erum lægst launaða fólkið á landinu. Við höfum bara ekki ráð á því að horfa á eftir þessu. Þetta liggur bara mjög þungt á mér. Ég er búin að eyða þremur árum í þetta. Allur þessi tími og þessi svik 2018, þau fannst mér ömurleg.“

Erfitt að segja upp 

Í kjölfar málsins tók Sigríður þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu. Það var þó ekki auðveld ákvörðun eftir 36 ára starfsferil hjá Vopnafjarðarhreppi. 

„En ég bara get ekki unnið fyrir sveitarfélag sem hefur komið svona fram við mig í þrjú ár. Og ég ætla bara að fullyrða það að ég vinn mjög mikilvægt starf í leikskólanum með börnunum,“ segir Sigríður klökk. 

Vill fá þau laun sem hún á að fá

Sigríður segist vera ákaflega óánægð með þá niðurstöðu hreppsins að greiða ekki kröfu Stapa að fullu. Hún hafi því eðli máls samkvæmt verið gríðarlega sár á hreppsnefndarfundi í síðustu viku þar sem niðurstaða málsins var kynnt. 

„Ég var rekin út af þeim fundi fyrir borgaralega óhlýðni, ég púaði þegar meirihlutinn var að skrifa undir þetta bull. Ég vissi alveg hvað ég var að gera og var hálfstaðin upp þegar ég púaði. 

„Ég er bara engan veginn sátt við þetta því ég vil fá þetta allt, þetta er hluti af laununum mínum. Við viljum bara fá þau laun sem við sannanlega eigum að fá. Þetta hefur áhrif á marga. Þetta hefur áhrif á makalífeyri hjá konu á leikskólanum sem missti manninn sinn í vor. Þetta hefur áhrif á konu sem varð að hætta vegna örorku núna nýverið. Þetta hefur haft mjög mikil áhrif á vinnustaðinn minn en sem betur fer hefur mér tekist að halda þessum málum frá börnunum. Við viljum bara læra og hafa gaman saman.“

Þá segir Sigríður að annar starfsmaður leikskólans sem líkt og Sigríður hefur unnið árum saman hjá hreppnum, hafi einnig sagt starfi sínu lausu vegna málsins. 

„Ég bara vil ekki trúa því að bæjarbúar geti sætt sig við séum rænd laununum okkar, þetta láglaunafólk sem er búið að passa börnin þeirra öll þessi ár, hugsa um þau í skólanum, keyra skólabílinn og halda götunum hreinum. Ég bara vil ekki trúa því.“

map.is
map.is map.is
map.is
map.is map.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert