Ánægjulegt að tala við heiminn samtímis

Andri Snær Magnason rithöfundur.
Andri Snær Magnason rithöfundur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég þurfti að bíða í 12 ár eftir að Lovestar og Blái hnötturinn kæmu út á ensku. Núna er það innan við eitt ár. Það er munur að fá að tala við heiminn í rauntíma. Það er ánægjulegt að fá að skrifa á íslensku og tala við heiminn samtímis. Þýðendur skipta miklu máli í þessu að það sé hægt að tala við fólk annars staðar í heiminum,“ segir Andri Snær Magnason rithöfundur um útgáfurétt nýjustu bókar hans Um tímann og vatnið sem hefur verið seldur til sjö landa. 

Fáheyrt er að óút­kom­in bók njóti jafn­mik­ill­ar at­hygli og verkið fær frá er­lend­um út­gef­end­um, að sögn Egils Arnar Jó­hanns­sonar, fram­kvæmda­stjóra For­lags­ins í samtali við Morgunblaðið nýverið. Þrjú enskumælandi forlög gefa bókina út og kemur hún út í Bretlandi, Bandaríkjunum og í Kanda. Umfjöllunarefni bókarinnar er loftslagsmál, stærsta viðfangsefni sem jarðarbúar hafa staðið sameinaðir frammi fyrir eins og það er orðað í kynningu bókarinnar. 

„Þetta er ættar- og fjölskyldusaga. Ég nota jöklarannsóknarferðir ömmu og afa og aðrar slíkar sögur. Stærsta hjartað er í þessari bók þó ég sé með stórt hjarta í Blá hnettinum og öðrum sögum en það má segja að þetta sé Blái hnötturinn fyrir fullorðna. Ég er að sækja sömu tilfinningar en nota þær í raunsögu,“ segir Andri.

Hann segir mikla vakningu vera í samfélaginu og í heiminum um loftslagsvána. Andri hefur verið með verkið í vinnslu síðasta áratuginn eða svo. Hann ræddi við bæði erlenda og íslenska vísindamennn við vinnslu verksins. Greta Thurnberg, aðgerðarsinninn í loftslagsmálum, veitti honum einnig innblástur.      

Í gær var Andri með sögustund upp úr verkinu á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu ásamt Högna Egilssyni tónlistarmanni. „Húsið var stappfullt. Við höldum þessu áfram fram á haustið,“ segir Andri um sýningu gærkvöldsins.  

Bókin byggir á sögum úr fjölskyldu Andra og spilar afi hans, Björn Þorbjörnsson, stórt hlutverk í henni auk sonar hans John Þorbjarnarsonar. Afi hans Björn dó á útgáfudegi bókarinnar. „Hann er rauði þráðurinn í bókinni og John Þorbjarnarson sonur hans. Ég náði að sýna honum bókina í New York áður en hún kom út. Hann fletti í gegnum hana á tölvuskjánum mínum. Hann var hress fram á síðasta dag og dó í svefni. Hann fékk að fara með reisn eins og höfðingja sæmir,“ segir Andri og minnist afa síns með hlýju.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert