„Loðmulluleg og aulaleg“ viðbrögð

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í utanríkismálanefnd, segir að …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í utanríkismálanefnd, segir að með því að gagnrýna ekki Bandaríkin fyrir þeirra aðkomu að innrás Tyrkja í Sýrland sé ríkisstjórnin að hunsa orsakasamhengi í málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir skorta í yfirlýsingu stjórnvalda, þar sem aðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í norðurhluta Sýrlands eru fordæmdar, að Ísland áteldi Bandaríkin fyrir þátt þeirra í því að atburðarrásin hófst. 

Hann spurði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun hvort von væri á slíkri yfirlýsingu. „Hann færðist undan því en sagði að eitthvert bréf hafi verið sent frá íslenskum stjórnvöldum til Bandaríkjanna, en ég veit ekki hvort það fór til sendaherra eða til Washington, en það kom fram að því hefur ekki verið svarað,“ segir Logi í samtali við mbl.is. 

Hann segir að áhyggjur Guðlaugs Þórs vegna ástandsins í Sýrlandi hafi komið skýrt fram á fundinum. Þeim áhyggjum deilir hann og óttast hann að atburðarrásin geti farið á versta mögulega veg. En með því að gagnrýna ekki Bandaríkin fyrir þeirra aðkomu þeirra, það er með því að afturkalla herafla sinn frá Sýrland, sé ríkisstjórnin að hunsa orsakasamhengi í málinu. 

„Viðbrögð Íslands er varða Tyrki eru góðra gjalda verð, en það verða líka að fylgja með ákúrur til Bandaríkjanna fyrir þeirra þátt. Á meðan það er ekki finnst mér viðbrögð ríkisstjórnarinnar loðmulluleg og aulaleg,“ segir Logi og bætir við að ríkisstjórnin eigi margt eftir ógert í málinu. 

Utanríkismálanefnd hefur kallað eftir greiningu frá utanríkisráðuneytinu varðandi stöðuna í Sýrlandi. 

Tyrkland á aðild að NATO og segir Logi viðbrögð Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, hafa verið máttleysisleg.

„Ég held að Ísland geti alltaf nýtt sér sína rödd til að tala fyrir friðsamlegum lausnum og yfirveguðum ákvörðunum. Við höfum vettvang innan NATO, Sameinuðu þjóðanna og mannréttindaráðinu en Ísland á og þarf og verður að stíga fast til jarðar og tala skýrt og mér finnst pínu skorta það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert