Festa dragband við framdekk

Framdekk á hjóli fest með dragbandi.
Framdekk á hjóli fest með dragbandi. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er öryggisráðstöfun. Þetta lagar ekki þessa hegðun,“ segir Steinar Kjartansson. Eftir ótal fregnir af því að framdekk á hjólum barna og unglinga hafa verið losuð undanfarið með þeim afleiðingum að fjölmargir hafa beinbrotnað og slasast ákvað Steinar að nota dragband til að festa framdekk á hjóli sonar síns kirfilega.

Steinar var sjálfur að nota dragband heima hjá sér að festa kapla þegar rætt var um að framdekk væru losuð af hjólum og hugmyndin kviknaði. „Ef bandið hefur verið losað sést það að minnsta kosti,“ segir Steinar. Dragbandið losnar ekki auðveldlega nema að notað sé beitt verkfæri.  

Steinar tók mynd og deildi á Facebook. Færslunni hefur verið deilt um 400 sinnum og rúmlega 1300 manns hafa líkað við færsluna. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði slíkt hið sama í dag, deildi myndinni og hvetur fólk til að nýta sér þetta ráð ef þurfa þykir.    



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert