„Eigum ekkert heima á þessum gráa lista“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert

„Við eigum ekkert heima á þessum gráa lista,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um þá staðreynd að Ísland gæti í lok vikunnar lent á gráum lista þjóða sem ekki hafa gripið til fullnægjandi aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

Hann Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, spurði ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun um af hverju aðgerðir stjórnvalda í málinu væru ekki nægjanlegar, þar sem nú lítur út fyrir að Ísland lendi á umræddum lista. 

Listinn er á vegum alþjóðlega framkvæmdahópsins FATF og í vikunni fer fundur á veg­um hóps­ins fram þar sem full­trú­ar dóms­málaráðuneyt­is­ins sitja fyr­ir hönd Íslands. Í apríl 2018 komst nefnd á veg­um FATF að því það væru ýmis mál út af stand­andi á Íslandi sem þyrfti að setja í sér­staka at­hug­un. 

Í síðustu viku voru tvö frumvörp afgreidd með hraði sem áttu að koma í veg fyrir að Íslandi myndi lenda á listanum. Fréttablaðið greindi svo frá því í morgun Bandaríkin og Bretland vilji Ísland á gráa listann til þess að skapa sterkt fordæmi þar sem aðgerðir íslenskra stjórnvalda hafi gengið hægt fyrir sig. 

Þórdís Kolbrún sagði að ákvörðun hvort Ísland endi á gráa listanum hafi ekki verið tekin. „Ef ég á að meta það hversu bjartsýn ég er eða svartsýn á það hvort við lendum á honum er það bara bundið við alla þá vinnu sem hefur farið fram, upplýsingar sem maður hefur um þá fundi sem hafa átt sér stað og ég get ekkert sagt til um það,“ sagði ráðherra. 

Ágallarnir sem FAFT nefndi voru 51 talsins og fullyrðir ráðherra að íslensk stjórnvöld líti svo á að búið sé að bæta úr þeim öllum. „Eina atriðið sem ekki er hægt að haka við að fullu er einhvers konar kerfi sem við þurfum að kaupa og höfum keypt en ekki er búið að ljúka við innleiðingu á því, af því að það er einfaldlega ekki hægt að ljúka henni á örfáum dögum eða vikum,“ sagði ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert