Guðmundur Ingi nýr varaformaður VG

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra og nýr varaformaður Vinstri grænna, og …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra og nýr varaformaður Vinstri grænna, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður flokksins, fallast í faðma eftir að sá fyrrnefndi var kjörinn varaformaður á landsfundi flokksins í dag. mbl.is/​Hari

Guðmundur Ingi Guðbrandsson var rétt í þessu kjörinn varaformaður Vinstri grænna á landsfundi Vinstri grænna, sem fram fer á Grand Hotel í Reykjavík. Guðmundur var einn í framboði og hlaut hann 187 atkvæði, en fimm skiluðu auðu.

Tvær voru í framboði til ritara flokksins, Ingibjörg Þórðardóttir og Una Hildardóttir, en báðar eru þær varaþingmenn flokksins. Ingibjörg hafði betur í kjörinu og fékk 119 atkvæði eða tæp 62 prósent greiddra atkvæða. Í tilkynningu frá VG segir að Ingibjörg hafi verið virk í starfi hreyfingarinnar í um tíu ár og á þeim tíma hefur hún verið formaður svæðisfélags, verið í stjórn kjördæmisráðs og þrisvar tekið þátt í Alþingiskosningum. Ingibjörg er formaður Kjördæmisráðs VG í Norðausturkjördæmi, þar sem hún er varaþingmaður.

mbl.is/Hari

Rúnar Gíslason var kjörinn gjaldkeri flokksins með 117 atkvæðum, tæpu 61 prósenti atkvæða, en auk hans var Ragnar Auðun Árnason, formaður Vinstri grænna í Reykjavík, í kjöri. Rúnar starfar sem lögreglumaður á Sauðárkróki og hefur áður setið í stjórn flokksins, auk þess að vera formaður svæðisfélags. Þá hefur hann verið í framboði fyrir flokkinn bæði í sveitarstjórnar og alþingiskosningum, að því er segir í tilkynningu frá VG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert