Uppsagnir lækna mikið reiðarslag

Frá starfsmannafundi á Reykjalundi í síðustu viku.
Frá starfsmannafundi á Reykjalundi í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki hefur verið leitað álits fagráðs Reykjalundar í neinum af þeim álitamálum sem komið hafa upp á stofnuninni síðastliðna mánuði. Fagráðið mótmælir því að óánægja starfsmanna á Reykjalundi einskorðist við deilur lækna við stjórnendur.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fagráði Reykjalundar.

„Fagráð tekur undir þær athugasemdir sem læknaráð Reykjalundar og Félag endurhæfingarlækna hafa sett fram varðandi slæm vinnubrögð við innleiðingu nýs skipurits og óviðeigandi afskipti stjórnar SÍBS af rekstrinum. Þá má einnig nefna óásættanleg vinnubrögð við uppsagnir forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga, sem og hótanir SÍBS til starfsmanna sem hafa tjáð sig í fjölmiðlum. Við hörmum þau ummæli sem hafa verið látin falla um samstarfsfólk okkar í fjölmiðlum þar sem vegið er að heiðri þeirra,“ segir í yfirlýsingunni.

Bent er á að einn af helstu styrkleikum Reykjalundar sé þverfagleg teymisvinna og jafnræði sem ríkir á milli starfstétta. Fagráðið hefur áhyggjur af teymisvinnunni í stöðunni sem komin er er upp.

„Uppsagnir lækna eru mikið reiðarslag þar sem stofnunin er að glata mikilli sérfræðiþekkingu sem við sjáum ekki fram á að hægt sé að sækja annað þar sem fáir endurhæfingarlæknar eru starfandi á Íslandi. Fagráð lýsir einnig yfir áhyggjum af því að félagasamtök geti haft óskorað vald yfir rekstri stofnunarinnar og ógnað faglegri starfsemi hennar,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert