Samkeppniseftirlitið varar við frumvarpi til breytinga á samkeppnislögum

Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frumvarpsdrög um breytingar á samkeppnislögum, sem kynnt voru í gær, valda miklum vonbrigðum þar sem í þeim er lögð til veruleg veiking á samkeppnislögum sem mun rýra kjör almennings. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Samkeppniseftirlitinu.

Í henni er það sagt alvarlegt að með frumvarpinu sé það lagt til að felld verði niður heimild Samkeppniseftirlitsins til málskots til dómstóla til að verja hagsmuni almennings og fyrirtækja sem hafi mátt þola skaðlegar samkeppnishindranir.

Fyrirtæki geti borið mál undir dómstóla en ekki gæslumenn almannahagsmuna

„Þannig verður Samkeppniseftirlitinu gert ókleift að tryggja að hagsmunir þessara aðila fái fullnaðarúrlausn fyrir dómstólum. Stór fyrirtæki sem eru ósátt við úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála geta borið þá undir héraðsdóm, Landsrétt og eftir atvikum Hæstarétt,“ segir í yfirlýsingunni og haldið áfram:

„Verði frumvarpið að lögum mun hins vegar engin[n] gæslumaður almannahagsmuna geta borið úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Verður þá skapað kerfi þar sem hagsmunagæsla öflugra fyrirtækja nýtur að þessu leyti forgangs og yfirburða gagnvart hagsmunum neytenda og smærri fyrirtækja.“

Mun vara ráðherra eindregið við

Þá er það sagt mikið áhyggjuefni að lagt sé til að lögð verði niður heimild Samkeppniseftirlitsins til að grípa til íhlutunar vegna tiltekinna skaðlegra samkeppnisaðstæðna.

„Þessi heimild gerir eftirlitinu t.d. kleift að koma í veg fyrir að fyrirtæki sitji óáreitt að einokunarhagnaði almenningi til tjóns.“

Samkeppniseftirlitið lýsir því yfir að það muni í umsögn sinni til ráðherra vara eindregið við lögfestingu frumvarpsins í núverandi mynd. Frumvarpið hefur verið sett inn í samráðsgátt stjórnvalda og rennur frestur til að skila inn umsögn út 4. nóvember.

Verið að „láta blauta drauma fákeppnismógula rætast“

Á vefsíðu Stjórnarráðsins segir að helstu breytingar á samkeppnislögum sem lagðar eru til með frumvarpinu eru að veltumörk tilkynningarskyldra samruna verða hækkuð og málsmeðferð þeirra einfölduð, breytingar verða á fyrirkomulagi undanþága frá bannreglum laganna sem felst í að fyrirtæki meti sjálf hvort skilyrði undanþága séu uppfyllt, heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots og til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla verði felldar brott.

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans, gagnrýndi frumvarpsdrögin á Facebook-síðu sinni í gær og gaf í skyn að með því væri verið að „láta blauta drauma fákeppnismógula rætast með því að draga tennurnar úr samkeppniseftirliti á Íslandi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert