„Sólveig er engin láglaunakona“

Þráinn Hallgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður …
Þráinn Hallgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafa eldað grátt silfur saman undanfarið. Samsett mynd

Þráinn Hallgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar-stéttarfélags, segir allar ásakanir Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, um að hann standi fyrir herferð gegn sér ósannindi. Þá segir hann margt annað sem kom fram í viðtali við Sólveigu ósatt, meðal annars að hann hafi komið að því að handvelja frambjóðanda í formannskjör Eflingar, í sama kjöri og Sólveig var valin formaður.

Í viðtalinu sagði Sólveig að herferð Þráins væri „knúin áfram af heift og hefnigirni.“ Þráinn svarar því til að hann eigi engra harma að hefna í garð Sólveigar. „Það sem stjórnar gerðum mínum í þessum málum er það sem við þurfum að horfa upp á í aðgerðum þeirra Sólveigar Önnu og Viðars Þorsteinssonar gagnvart starfsfólki Eflingar. Það er það sem rekur mig áfram.“

Segir Þráinn aldrei hafa lýst andstöðu við kjör Sólveigar við síðasta stjórnarkjör, en Sólveig hafði haldið því fram að Þráinn gæti ekki sætt sig við valdaskiptin.

Þá gerir Þráinn athugasemd við að Sólveig lýsi sér sem ófaglærðri láglaunakonu. „Ja, hérna. Lágt er nú lagst. Hvað skyldu þær vera margar láglaunakonurnar sem ég hef unnið með í Eflingu og eldri félögum, sem hafa verið góðir yfirmenn mínir og félagar. Hvers konar málflutningur er þetta? Hvenær ætlar Sólveig að átta sig á því að þetta væl er orðið útjaskað? Sólveig er engin láglaunakona,“ segir Þráinn í svarbréfi sínu.  

Þá segir hann af og frá að hann hafi verið hálaunamaður árum saman, en Sólveig hélt því fram í pistli sínum. Segir Þráinn að fjórir eða fimm starfsmenn séu nú í hans störfum og launakostnaður vegna starfa hans sé aðeins brot af því sem verið sé að greiða fyrir í dag.

Yfirlýsingu Þráins má í heild sjá hér að neðan:

Svar til formanns Eflingar við

Ósannindum og dylgjum Sólveigar Önnu

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar skeytir skapi sínu á persónu minni í geðvonskulegri grein sinni á vef Eflingar-stéttarfélags fimmtudaginn 24. október sl. en hluti af því kemur fram á vef mbl.is sama dag.  Ég mun hér svara lið fyrir lið ásökunum hennar í minn garð en hirði lítið um að eiga orðastað við hana um skoðanir hennar og dylgjur um persónu mína eða einkalíf mitt.

  1. „Herferð knúin með heift og hefnigirni“ er fyrirsögn greinar Sólveigar Önnu. Af hverju ætti ég að stjórnast af heift og hefnigirni. Margur heldur mig sig. Ég hef engra harma að hefna gegn Sólveigu Önnu og finn heldur ekki til neinnar heiftar í hennar garð. Það sem stjórnar gerðum mínum í þessum málum er það sem við þurfum að horfa upp á í aðgerðum þeirra Sólveigar Önnu og Viðars Þorsteinssonar gagnvart starfsfólki Eflingar. Það er það sem rekur mig áfram.
  2. Gat ég ekki „ sætt mig við valdaskipti í félaginu.“ Þetta eru ósannindi. Ég eða félagar mínir höfum aldrei lýst andstöðu við kjör formanns í Eflingu við síðasta stjórnarkjör.  Skora á Sólveigu að finna þessari fullyrðingu stað að svo hafi verið.
  3. Sólveig vísar ásökunum um „einelti og ólíðandi framkomu á bug“. Hér vísa ég bara til ásakana þeirra starfsmanna sem hafa komið fram opinberlega og lýst framkomu Sólveigar og Viðars Þorsteinssonar í sinn garð. Treysti þeim betur sem hafa lýst samskiptum við þau. Undanfarna daga og vikur hefur Viðar Þorsteinsson lagt fjármálastjóra Eflingar, Kristjönu Valgeirsdóttur, einn af núverandi starfsmönnum í veikindaleyfi í einelti á opinberum vettvangi m.a. með birtingu upplýsinga úr bókhaldi Eflingar. Þurfum við frekari vitna við?
  4. „Gat ekki sætt sig við ófaglærða láglaunakonu.“ Ja, hérna. Lágt er nú lagst. Hvað skyldu þær vera margar láglaunakonurnar sem ég hef unnið með í Eflingu og eldri félögum, sem hafa verið góðir yfirmenn mínir og félagar. Hvers konar málflutningur er þetta? Hvenær ætlar Sólveig að átta sig á því að þetta væl er orðið útjaskað? Sólveig er engin láglaunakona.
  5. Sólveig Anna segir að „ég og fyrrverandi formaður höfum handvalið mann til að stýra félaginu.“ Enn ein ósannindin. Ég átti engan þátt í að velja Ingvar Vigur Halldórsson sem frambjóðanda í formannskjöri Eflingar. Það er hlutverk uppstillingarnefndar, stjórnar og trúnaðarráðs. Sólveigu er mjög tamt að grípa til ósanninda eins og þessar fullyrðingar bera með sér. Ég er fullviss um að Ingvar Vigur og fleiri fyrrum stjórnarmenn geta staðfest þetta.
  6. „Hann ( Þráinn ) hefur verið hálaunamaður árum saman.“ Jæja. Nú vildi ég gjarnan að laun mín væru borin saman við alla þá stjóra sem Sólveig Anna er búin að raða í kringum sig á skrifstofu Eflingar. Mér sýnist að það gætu verið fjórir eða fimm starfsmenn sem eru í mínum verkefnum. Ég vann alla tíð langan vinnudag á Eflingu og fullyrði að tímakaup mitt var lágt. Launakostnaður vegna starfa minna er eflaust í dag aðeins brot af því sem verið er að borga fyrir á skrifstofu Eflingar í dag.
  7. „Getur ekki sætt sig við að þetta félag sé leitt af tveimur konum.“ Ég get huggað mig við það að hafa eins og áður segir unnið með fjölmörgum konum og hef aldrei verið borinn slíkum sökum og mér finnst fórnarlambahlutverk fara Sólveigu Önnu illa. Hún hefur enga nema sjálfa sig til að bera vott um þetta. Ég skora á Sólveigu að finna því stað einhvers staðar að ég hafi hallað máli gegn konum í málflutningi mínum. Það sem ég hef gagnrýnt er málflutningur og framkoma Sólveigar Önnu Jónsdóttir. Það er það sem hún þolir ekki.

Ég ætla ekki að elta ólar við útúrsnúninga og óviðeigandi skoðanir Sólveigar Önnu eða dylgjur um einkalíf mitt og tómstundir. Niðrandi tal til mín leiði ég hjá mér og einnig hrokatal hennar um aldur minn og persónu. Ég get samt ekki setið á mér að benda á að Sólveig Anna þurfti á gömlum körlum, sem hún fer niðrandi orðum um mun eldri en mér, að halda sem hún fékk til ráðgjafar við sig og réði til verkefna og starfa án þess að aldur þeirra væri til fyrirstöðu. Það sýnir líklega best af öllu hvað réði gerðum hennar þegar hún losaði sig við mig sem skrifstofustjóra.

                                               Þráinn Hallgrímsson

                                               Fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert