Ritstjóri DV braut gegn siðareglum blaðamanna

Lilja Katrín Gunnarsdóttir ritstjóri DV.
Lilja Katrín Gunnarsdóttir ritstjóri DV. Ljósmynd/samsett

Lilja Katrín Gunnarsdóttir, ritstjóri og ábyrgðarmaður DV, braut alvarlega gegn siðareglum með umfjöllun um refsifanga á Vernd. Þetta kemur fram í úrskurði siðanefndar Blaðamannafélagsins. Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, kærði umfjöllun DV til siðanefndarinnar 30. júlí síðastliðinn fyrir hönd fangans. 

Ágúst Borgþór Sverrisson, blaðamaðurinn sem skrifaði hina kærðu frétt, telst ekki brotlegur samkvæmt úrskurðinum því Lilja Katrín ber endanlega ábyrgð á textanum og telst því brotleg.  

Fréttirnar um refsifangan Gunnar Rúnar Sigþórsson, sem var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morðið á Hannesi Helgasyni árið 2011, voru fjórar talsins á DV. 

Í umræddum fréttum var greint frá fötlun bróður fangans, sjálfsvíg föður hans og tilgreint heimilisfang móður hans. Þessi atriði taldi siðanefndin ekki í samræmi við siðareglur blaðamanna. „Siðanefndin telur hvað þessi atriði varðar að kærður fjölmiðill hafi ekki auðsýnt tillitssemi vandasömu máli og lagt ósanngjarna byrði á saklausu þriðju aðila. Sama gildir í raun um viðkomandi fanga.“ Segir í úrskurði siðanefndarinnar. 

Auk þess var myndbirting af Gunnari talin brjóta gegn siðareglum. Sú mynd var tekin úr launsátri þar sem hann var við vinnu sína. Siðanefndin tekur fram að fanginn sé ekki síbrotamaður sem hafi ítrekað komist í kast við lögin heldur sé hann kominn langt með afplánun sína. 

Kæra Afstöðu var í sex liðum og taldist umfjöllunin hafa brotið gegn siðareglunum í helmingi þeirra atriða eða frá lið 4-6. 

Siðanefndin tók málið fyrir 10. september, 17. september og 29. október.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert