0,1% áttu 5,7% eigin fjár landsmanna

Logi Einarsson þingmaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eigið fé þeirra 5% framteljenda sem mestar eignir áttu við lok árs 2018 samkvæmt skattframtölum var 1.864 milljarðar kr. og hlutfall eigin fjár þeirra af eigin fé allra framteljenda var 40,8%. Eigið fé þess 1% framteljenda sem mestar eignir áttu við lok árs 2018 var 802,1 milljarður kr. og hlutfall eigin fjár þeirra af eigin fé allra framteljenda var 17,6%.

Þetta kem­ur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, við fyr­ir­spurn Loga Ein­ars­son­ar, þing­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Logi lagði svipaða fyrirspurn fram fyrir um ári síðan um eignir þeirra sem mest áttu árið 2017 og þá var eigið fé þessara 5% framteljenda 1.676,7 milljarðar eða 187,3 milljörðum minna en nú. Hlutfall eigin fjár þeirra af eigin fé allra landsmanna var þá 42%, eða 1,2 prósentustigum meira en nú.

Eigið fé þess 0,1% framteljenda sem mest áttu við lok árs 2018 var 260,2 milljarðar kr. og hlutfall eigin fjár þeirra af eigin fé allra framteljenda var 5,7%.

Bjarni Benediktsson fjár­mála- og efna­hags­ráðherra.
Bjarni Benediktsson fjár­mála- og efna­hags­ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

5% eiga 31,8% af heildareignum

Heildareignir þeirra 5% framteljenda sem mestar eignir áttu við lok árs 2018 samkvæmt skattframtölum voru 2.091,5 milljarðar króna, að því er fram kemur í svari fjár­mála- og efna­hags­ráðherra og hlutfall eigna þeirra af heildareignum var 31,8%.

Heildareignir þess 1% framteljenda sem mestar eignir áttu við lok árs 2018 voru 843,8 milljarðar kr., sem svarar til 12,8% af heildareignum allra framteljenda. Heildareignir þess 0,1% landsmanna sem mestar eignir áttu við lok árs 2018 voru 265,6 milljarðar kr. eða sem nam 4,0% af heildareignum. 

Heildartekjur tekjuhæstu 5% voru 18,6% af tekjum allra framteljenda

Heildartekjur með fjármagnstekjum samkvæmt skattframtölum hjá tekjuhæstu 5% framteljenda voru 394 milljarðar kr. árið 2018 og hlutfall tekna þeirra af tekjum allra framteljenda árið 2018 var 21,2%.

Heildartekjur með fjármagnstekjum hjá tekjuhæsta 1% framteljenda voru 146,8 milljarðar kr. og hlutfall tekna þeirra af öllum tekjum árið 2018 var 7,9%. Heildartekjur með fjármagnstekjum hjá tekjuhæsta 0,1% framteljenda voru 45,5 milljarðar kr. og hlutfall tekna þeirra af heildartekjum var 2,4%.

Heildartekjur án fjármagnstekna hjá tekjuhæstu 5% framteljenda voru 323,8 milljarðar kr. árið 2018 og hlutfall þeirra af tekjum allra framteljenda (án fjármagnstekna) var 18,6%. Heildartekjur án fjármagnstekna hjá tekjuhæsta 1% framteljenda voru 98,7 milljarðar kr. eða sem svaraði til 5,7% af heildartekjum framteljenda (án fjármagnstekna) var 5,7%. Heildartekjur án fjármagnstekna hjá tekjuhæsta 0,1% framteljenda voru 19,7 milljarðar kr. og hlutfall þeirra af tekjum allra framteljenda (án fjármagnstekna) var 1,1%. 

Tekjuhæstu 10% eiga 36,1% af eigin fé allra framteljenda

Tekjuhæstu 10% framteljenda samkvæmt skattframtölum áttu í lok árs 2018 samanlagt 36,1% af eigin fé allra framteljenda og 33,9% af heildareignum. Tekjuhæstu 5% framteljenda árið 2018 áttu við lok árs 2018 samanlagt 23,9% af eigin fé allra framteljenda og 21,2% af heildareign allra. Tekjuhæsta 1% framteljenda árið 2018 átti við lok árs 2018 samanlagt 9,4% af eigin fé allra framteljenda og 7,4% af heildareignum. Tekjuhæsta 0,1% framteljenda árið 2018 átti við lok árs 2018 samanlagt 2,3% af eigin fé allra landsmanna sem svarar til 1,7% af heildareignum allra framteljenda. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert