Ekki áfellisdómur yfir Útlendingastofnun

Þorsteinn Gunnarsson settur forstjóri Útlendingastofnunar var gestur í Kastljósi fyrr …
Þorsteinn Gunnarsson settur forstjóri Útlendingastofnunar var gestur í Kastljósi fyrr í kvöld. Skjáskot/RÚV

Athugasemd frá embætti landlæknis, um að brottflutningur albanskrar barnshafandi konu hefði ekki átt að fara fram í nótt, kom starfsmönnum Útlendingastofnunar á óvart og það var ekkert athugavert við framkvæmdina. Þetta sagði Þorsteinn Gunnarsson settur forstjóri Útlendingastofnunar í Kastljósi í kvöld.

Starfsmenn Útlendingastofnunar sáu ekkert athugavert við framkvæmdina eða hvernig var að staðið að brottflutningi konunnar í þessu máli heldur voru þeir sammála mati starfsmanna stoðdeildar ríkislögreglustjóra sem framkvæmdu brottflutninginn í nótt. 

Embætti landlæknis sendi frá sér athugasemd í dag þar sem kom fram að það hefði átt að hætta við brottflutning konunnar á grundvelli vottorðs sem konan fékk frá Landspítalanum í nótt.

Viðbrögð embættis landlæknis komið á óvart

„Það kom okkur töluvert á óvart því við erum ekki óvön því að sjá vottorð frá heilbrigðisyfirvöldum sem varða málefni þeirra einstaklinga sem við erum að þjónusta og þar er yfirleitt kveðið mjög skýrt að orði hvort viðkomandi sé fær um að fara í flug eða ekki,“ segir Þorsteinn og bætir við:

„Þegar við lásum þetta vottorð í morgun þá fannst okkur það einfaldlega benda á það að það væri erfitt að fara í langt flug til Albaníu. Það er það sem við lásum út úr því og vorum sammála mati starfsmanna [stoðdeildar ríkislögreglustjóra] að það eitt og sér hefði ekki átt að leiða til þess að það væri hætt við framkvæmdina.“

Gæti gerst aftur miðað við gildandi reglur

Spurður hvort að um brýna þörf hafi verið að senda konuna úr landi miðað við það að hún var gengin 36 vikur á leið og af hverju henni var ekki leyft að fæða hér á landi sagði Þorsteinn að verkefni Útlendingastofnunnar væri að afgreiða umsóknir þeirra sem óska eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi á sanngjarnan og skilvirkan hátt.

Hann viðurkenndi að þetta gæti gerst aftur því reglurnar séu þannig að ekkert sé framkvæmd til fyrirstöðu ef ekkert hrjáir viðkomandi einstakling.

Þorsteinn sagðist ekki líta á málið og gagnrýni á Útlendingastofnun vegna málsins sem áfellisdóm yfir stofnuninni heldur bætti því við að Útlendingastofnun líti málið einnig alvarlegum augum. Í málinu hafi verið að ræða gögn frá heilbrigðisyfirvöldum sem voru ekki nógu skýr og það þurfi að passa að slíkt komi ekki fyrir aftur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert