Öðru hvoru „herleiðangur“ gegn garðinum

Fólk á ferð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í vor. Garðurinn …
Fólk á ferð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í vor. Garðurinn er nú gagnrýndur á netinu. mbl.is/Árni Sæberg

Þorkell Heiðarsson, fram­kvæmda­stjóri Fjölskyldu- og hús­dýrag­arðsins, segir að uppbyggileg gagnrýni á garðinn sé af hinu góða og að alltaf sé jákvætt að velferð dýra sé rædd. Samt sem áður telur Þorkell að garðurinn eigi ekki skilið þær neikvæðu umsagnir sem hafa borist inn á fésbók garðsins síðustu daga þar sem dýrin í garðinum líði ekki skort.

Net­verj­ar virðast ósátt­ir með hús­dýrag­arðinn ef marka má um­sagn­ir sem hafa hrann­ast inn á fés­bók garðsins síðustu daga. Þar er aðbúnaður­inn í garðinum gagnrýndur og starfsemin kölluð öllum illum nöfnum.

Þorkell Heiðarsson.
Þorkell Heiðarsson. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Auðvitað er alltaf leiðinlegt þegar fólk talar illa um garðinn og verst þykir mér þegar vegið er að starfsheiðri þeirra sem vinna hérna með dýrin. Ég veit að það er fólk sem leggur sig mikið fram um að hugsa vel um dýrin í garðinum. Við megum ekki gleyma því að stór hluti dýranna sem hér eru eru húsdýr, dýr sem eru á bæjum hér víða um land enda er þetta húsdýragarður að mestu leyti,“ segir Þorkell. 

Hann bætir því við að garðurinn sé ekki yfir gagnrýni hafinn. „Þar með sagt þolum við alveg gagnrýni og það er hægt að bæta aðstöðu dýra í garðinum endalaust. Við vitum alveg að það hefur til dæmis verið mikið sett út á það að selatjörnin sé of lítil og það er vonandi mál sem við sjáum breytingar á á næstunni. Það er verið að vinna í því að bæta þá aðstöðu.“

Segir minnihluta fólks á móti garðinum

„Við megum ekki gleyma því að stór hluti dýranna sem …
„Við megum ekki gleyma því að stór hluti dýranna sem hér eru eru húsdýr, dýr sem eru á bæjum hér víða um land enda er þetta húsdýragarður að mestu leyti,“ segir Þorkell. mbl.is/Árni Sæberg

Þorkell segir að öðru hvoru fari ákveðinn hópur fólks í „herleiðangur“ gegn garðinum. 

„Við vitum líka að hópur fólks telur að það að halda dýr sé eitthvað sem eigi ekki að gera og er einfaldlega á móti því að dýr séu haldin almennt. Það er náttúrulega mikill minnihluti fólks.“

Þorkell telur að yfirlýsingar um þessi efni byggi gjarnan á veikum grunni.

„Þá ber að geta þess að við sjáum oft yfirlýsingar sem byggja hreinlega ekki á raunveruleikanum eins og því að það eigi bara að sleppa dýrunum hér út en þá lítur fólk algjörlega fram hjá því að í landinu gilda alls kyns lög og reglur sem takmarka það og gera það í raun ókleyft. Þú mátt ekkert sleppa dýrum út á Laugarveg og leyfa þeim að rölta um bæinn þó einhverjir telji það æskilegt.“

Meirihluti fólks er fylgjandi starfsemi garðsins, að sögn Þorsteins. „Almennt séð þá finnum við að það sé mikill meðbyr með garðinum. Við fáum mikið af jákvæðum umsögnum, meðal annars frá ferðamönnum sem koma hér í garðinn en við erum alltaf tilbúin í að gera betur og hlusta á uppbyggilega gagnrýni á aðstöðu dýranna. Það verður þá líka að vera uppbyggilegt, byggja á raunveruleikanum og rökum.“

Selalaugin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
Selalaugin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. mbl.is/Eggert

Spurður hvort honum þyki umsagnirnar ekki vera uppbyggilegar segir Þorkell:

„Eflaust í einhverjum tilfellum en í öðrum ekki, það er bara eins og gengur. Það er sjálfsagt og jákvætt í sjálfu sér að ræða velferð dýra. Í mörgum viðtölum hef ég bent á að þegar garðurinn var byggður árið 1989 þá voru allt önnur viðmið í dýrahaldi en eru í dag. Það er mjög mikilvægt að við reynum að fylgja tíðarandanum og bæta aðstöðu dýranna hérna með hliðsjón af því hvernig hlutirnir eru í dag. Að því slepptu þá hef ég unnið hér lengi og ég veit að hér er mjög vel hugsað um dýrin. Dýrin hér líða hvorki ógn né skort.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert