Ekki hringtorg þó að ekið sé í hring

Í Hafnarfirði færðu menn biðstöðina eftir að ljóst var að …
Í Hafnarfirði færðu menn biðstöðina eftir að ljóst var að strætó má ekki stöðva á hringtorgum. Ekki má búast við sömu lausn í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að vagnstjórar Strætó gætu átt von á sekt frá lögreglu stöðvi þeir vagna sína á stoppistöðvum sem staðsettar eru við hringtorg, en til að hleypa farþegum inn og út þarf að stoppa á akstursbraut torganna. Ástæðan er sú að óheimilt er, samkvæmt umferðarlögum, að stöðva ökutæki á hringtorgi. Vegna þessa tók Strætó ákvörðun um að loka þremur stöðvum, við Hagatorg og Hádegismóa í Reykjavík og Vörðutorg í Hafnarfirði.

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir Strætó nú bíða eftir því að Reykjavíkurborg bregðist við stöðunni. Í Hafnarfirði hafa menn þegar leyst málið með því að flytja stoppistöðina við Vörðutorg í Áslandi niður í brekkuna við Ásabraut.

Spurður hvort Strætó hafi borist einhverjar kvartanir vegna lokunar stoppistöðvanna svarar Jóhannes Svavar: „Við fengum nokkrar hringingar út af Hafnarfirði, en þær hættu eftir að biðstöðin var flutt. Ég hef ekki heyrt af öðrum kvörtunum.“

Sigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsþjónustu í Hafnarfirði, segir sína menn hafa brugðist skjótt við stöðunni. „Strætó var bent á að þeir yrðu sektaðir og við brugðumst við þessari stöðu og leystum verkefnið hratt og vel. Enda viljum við vera þekktir fyrir að veita góða þjónustu hér,“ segir hann.

Biðstöðin verður ekki færð

Fram hefur komið að Reykjavíkurborg segir Hagatorg ekki vera „hefðbundið“ hringtorg. Þrátt fyrir þá afstöðu borgarinnar má víða finna umferðarmerkingar við torgið sem sýna að um sé að ræða hringtorg. Sömu merkingar er að finna við hringtorg víða um land, þ.ám. hringtorgið við Hádegismóa.

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, segist ekki eiga von á því að stoppistöðin við Hagatorg verði færð. Unnið sé að því að finna hvaða breytingar þarf að gera á merkingum á svæðinu.

„Þetta er ekki hringtorg, heldur akbraut. Þetta er vissulega torg, en ekki endilega hringtorg þó að það liggi í hring,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið í gær.

Spurður hvort Reykjavíkurborg líti á hringtorgið við Hádegismóa sem hringtorg eða eitthvað annað svarar hann: „Væntanlega er það nú hringtorg, en ég hef ekki séð það með berum augum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert