Óvenjumikill málafjöldi á fámennu landi

Markús Sigurbjörnsson (lengst til vinstri) að störfum.
Markús Sigurbjörnsson (lengst til vinstri) að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er miklum mun meira af málum miðað við höfðatölu en til dæmis annars staðar á Norðurlöndum og svo hefur reyndar verið gegnum alla 100 ára sögu Hæstaréttar.“ Þetta segir Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, þegar hann lítur til baka yfir þau 25 ár sem hann starfaði sem hæstaréttardómari en hann lét af stöfum 1. október. Þetta kemur fram í viðtali við hann sem birtist á vef Hæstaréttar Íslands í tilefni tímamótanna. 

Markús segir þennan mikla málafjölda hér á þessu fámenna landi jafnan vekja athygli á alþjóðavettvangi. Hvað veldur, veltir hann því upp að kannski eigi þetta „einhverjar rætur að rekja til þess að við séum bæði þrasgjarnir og þrjóskir,“ segir hann. Annað sem vekur einnig undrun hans er „hvað kemur mikið upp af óvenjulegum lagalegum álitaefnum hér á landi miðað við ekki fleiri íbúa“. Íslendingar eru á pari við stórar og almennar þjóðir hvað þetta varðar. 

Mikið að gera eftir bankahrunið

Miklir annatímar sköpuðust hjá Hæstarétti í bankahruninu og þá var þyngsti róðurinn. Fjöldi einkamála var höfðaður á hendur föllnu bönkunum. Þau mál voru mjög umfangsmikil og kölluðu á mikla vinnslu og dæmi um að málskjöl hafi stundum náð 10 þúsund síðum. „[A]lmenningur gerir sér líklega ekki grein fyrir þeim fjölda einkamála á hendur föllnu bönkunum, sem varð að leysa og svo mál bankanna á hendur öðrum, þar sem reyndi til dæmis á ágreining um gengistryggingu lána,“ segir Markús.

Margt hefur breyst á þessum 25 árum eins og gefur að skilja. Til að mynda voru greinargerðir lögmanna fyrir aldarfjórðungi 3 - 5 síður en eru nú gjarnan 20 - 25 síður auk þess er mun meira af gögnum er lagt fram. Tegundir mála hafa orðið fjölbreyttari og málategundir gengið í bylgjum í takt við breytingar á lagaákvæðum. 

Markús dæmdi í 4.885 málum á 25 árum og einungis tveir menn sátu lengur en hann í stóli hæstaréttardómara. Markús lét af störfum 1. október skömmu eftir að hann varð 65 ára gamall.  

Markús Sigurbjörnsson ásamt þáverandi forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni, við embættistöku …
Markús Sigurbjörnsson ásamt þáverandi forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni, við embættistöku hans. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert