„Ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur“

Frá mótmælunum á Austurvelli í dag.
Frá mótmælunum á Austurvelli í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mótmælendum sem mættu á Austurvöll í dag var mörgum hverjum afar heitt í hamsi yfir framferði forsvarsmanna Samherja í viðskiptum sínum í Namibíu. 

Blaðamaður mbl.is á Austurvelli ræddi meðal annars við félagana Bjarna og Pál. Sögðu þeir spillingu á Íslandi vera ólíðandi og að grípa þurfi til aðgerða. 

„Ég er að mótmæla þessari spillingu sem hefur komið fram í þessu Samherjamáli. Namibíumenn hafa nokkrir sagt af sér eða lent í fangelsi en það er ekkert af þessu á Íslandi,“ sagði Bjarni, aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið að mæta á mótmælafundinn. 

Bjarni og Páll mótmæltu á Austurvelli í dag.
Bjarni og Páll mótmæltu á Austurvelli í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Páll tók í svipaðan streng. 

„Mér ofbauð að horfa á Kveik, mér varð illt. Ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur útaf þessu ástandi sem er hérna og búið að vera alltof lengi,“ sagði Páll. 

Bjarni og Páll voru sammála um að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra eigi að segja af sér, en afsögn Kristjáns var á meðal þriggja meginkrafa mótmælenda. 

Hinar tvær kröfurnar eru annars vegar að Alþingi lögfesti nýja stjórnarskrá sem landsmenn samþykktu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 og hins vegar að arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings. 

Vilja nýja stjórnarskrá 

Ljóst er að ný stjórnarskrá var mörgum mótmælendum ofarlega í huga. Nokkrir þeirra mótmælenda sem mbl.is ræddi við voru á þeirri skoðun að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætti annað hvort að samþykkja nýja stjórnarskrá, eða segja af sér að öðrum kosti. 

Á meðal þeirra sem mættu á mótmælafundinn var Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. 

„Ný stjórnarskrá hefur verið á meðal helstu stefnumála Pírata alveg frá stofnun þannig að auðvitað mæti ég á þennan fund og finnst mikilvægt að við sameinumst um það og fáum loksins nýja stjórnarskrá. Þetta lítur út fyrir að vera ekki að fara neitt núna með núverandi ríkisstjórn,“ sagði Halldóra. 

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðspurð hvort hún telji að ríkisstjórnin grípi til nokkurra aðgerða í kjölfar mótmælanna telur Halldóra það vera ólíklegt. 

„Maður hefði haldið að hún myndi gera það og maður hefði vonað að hún myndi gera það en ég held ekki. Ég held að þau haldi bara áfram á þessari sömu braut.“

Þá segist Halldóra vera á þeirri skoðun að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra eigi að segja af sér. 

„Mér finnst það. Sérstaklega í ljósi þess að forsætisráðherra hefur sýnt því mikinn áhuga og ríkisstjórnin öll, að efla traust almennings á stjórnmálum og það hefur verið gefin út skýrsla þess efnis sem er mjög skýr. Mér finnst bara eðlilegt þegar svona mál koma upp að fólk segi af sér, hann átti náttúrulega aldrei að verða sjávarútvegsráðherra til að byrja með í ljósi tengsla.“

Bára Halldórsdóttir og Sólveig Anna Jónsdóttir mættu á mótmælafundinn á …
Bára Halldórsdóttir og Sólveig Anna Jónsdóttir mættu á mótmælafundinn á Austurvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert