Þreytt og pirruð móðir veitti dóttur sinni áverka

Héraðsdómur Vestfjarða kvað upp dóm sinn í málinu 28. nóvember.
Héraðsdómur Vestfjarða kvað upp dóm sinn í málinu 28. nóvember. Af vef Bæjarins besta

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt konu í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að veitast að barnungri dóttur sinni, sýna henni vanvirðandi háttsemi og ruddalega framkomu fyrr á þessu ári. Móðirin var einnig dæmd til að greiða dóttur sinni 200.000 krónur í miskabætur, en dómurinn var kveðinn upp 28. nóvember.

Konan var ákærð fyrir að hafa kasta dóttur sinni nauðugri í rúm á heimili þeirra, með þeim afleiðingum að hún endurkastaðist í gólfið og lenti þar ofan á leikföngum. Einnig var konan ákærð fyrir að rífa svo harkalega í buxur stúlkunnar þegar hún sat á rúminu, í því skyni að klæða hana úr þeim, að hún dróst aftur í gólfið og ofan á leikföng. Stúlkan hlaut meiðsli af þessu, nánar tiltekið eymsli í baki, hruflsár við 10. — 11.0 hryggjarlið, mar hægra megin á baki og hruflsár í vinstri hnésbót.

Konan neitaði því fyrir dómi að hafa kastað dóttur sinni á rúmið, en játaði að hafa tekið í buxur hennar með þeim afleiðingum að stúlkan datt í gólfið. Hún neitaði því einnig að hafa ýtt dóttur sinni inn um glugga á heimili þeirra, en öll þessi atburðarás hófst eftir að mæðgurnar læstust úti. Móðirin vildi að dóttir sín myndi drulla sér inn í herbergi og fara að sofa í kjölfarið. Móðirin var ekki sakfelld fyrir þau atriði sem hún neitaði.

Móðirin sagðist hafa verið reið og pirruð er atvikið átti sér stað. Eldri dóttir hennar varð vitni að atvikinu og sagði fyrir dómi að móðir sín hefði klætt yngri systur sína svo harkalega úr buxunum að hún hefði dottið á gólfið og ofan á leikföng sem þar lágu.

Hún sagði einnig að móðir hennar hefði beðið hana um að þegja yfir atvikinu, hún hefði verið reið og misst sig. Eldri dóttirin lýsti því að systir hennar hefði hágrátið eftir að hún lenti á gólfinu og að daginn eftir hefði hún verið fjólublá og rauð í bakinu og kvartað undan höfuðverk.

Eldri dóttirin, sem býr ekki á sama heimili, sagði manni frá því sem gerst hafði og sá maður hafði samband við lögreglu, sem hafði samband við barnaverndaryfirvöld vegna málsins.

Móðirin hefur ekki áður sætt refsingu, en í dómnum segir að með hátterni sínu hafi hún brugðist uppeldisskyldum sínum gagnvart dóttur sinni og var sem áður segir dæmd í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða í málinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert