Til stendur að vísa konu og ársgömlu barni úr landi

Útlendingastofnun synjaði beiðni fjölskyldunnar um dvalarleyfi í febrúar í fyrra …
Útlendingastofnun synjaði beiðni fjölskyldunnar um dvalarleyfi í febrúar í fyrra og var henni vísað aftur til Georgíu. Fjölskyldan kom aftur til Íslands fyrir um ári. mbl.is/Hjörtur

Vísa á georgískri konu og tæplega ársgömlu barni hennar úr landi, þrátt fyrir að barnið hafi fæðst hér á landi. Samtökin No Borders Iceland greina frá þessu á Facebook-síðu sinni. 

„Enn og aftur reynir ÚTL og stoðdeild að brottvísa fjölskyldu án fyrirvara. Ekki eru liðnar nema örfáar vikur síðan stoðdeild reif kasólétta konu í flug, þvert á ráðleggingar heilbrigðisstarfsfólks, veifandi fit-to-fly skírteini sem var fengið frá lækni sem aldrei hafði hitt konuna,“ segir meðal annars í færslunni. 

Í lögum um útlendinga kemur fram að óheimilt er að vísa frá eða úr landi þeim sem hafi frá fæðingu átt hér óslitið fasta búsetu samkvæmt þjóðskrá. 

Samkvæmt upplýsingum samtakanna mætti lögregla í húsnæði flóttamannafjölskyldna í Bæjarhrauni um klukkan 14 í dag í þeim tilgangi að sækja hjónin Marika Chukhua og Ivane Broladze og son þeirra Tomas. Ivane var ekki heima en Marika og Tomas voru flutt á lögreglustöðina í Hafnarfirði. 

Fréttablaðið hefur eftir lögmanni fjölskyldunnar að mæðgin hafi verið aðskilin og barnaverndarnefnd hafi verið kölluð til. 

Frumburður hjónanna jarðsettur í Gufuneskirkjugarði

„Baráttan er ekki búin, brottvísunin virðist enn standa til og líkt og sagt var áður er ekki vitað hvar Marika og barnið eru, en samkvæmt heimildarmönnum voru þau sett í hvíta sendibíl stoðdeildar,“ segir í færslu No Borders Iceland. 

Fjölskyldan sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi sumarið 2017 þegar Marika var ólétt af frumburði þeirra. Barnið fæddist andvana á 20. viku meðgöngu og var jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Útlendingastofnun synjaði beiðni fjölskyldunnar um dvalarleyfi í febrúar í fyrra og var henni vísað aftur til Georgíu. Fjölskyldan kom aftur til Íslands fyrir um ári og var Marika ólétt. Brottvísuninni var frestað og Tomas fæddist í janúar.

Ekki náðist í Þorstein Gunnarsson, settan forstjóra Útlendingastofnunar, við vinnslu fréttarinnar. 



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert