Ekki vanhugsað að nýta „reynslubolta“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kveðst ekki sammála Úlfari Lúðvíkssyni, formanni Lögreglustjórafélags Íslands og lögreglustjóra á Vesturlandi, en lögreglustjórinn sagði í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi að það væri „vanhugsað“ af ráðherra að hafa Harald Johannessen, ríkislögreglustjóra, áfram sem ráðgjafa.

Áslaug Arna lýsir ferlinu sem leiddi til þess að ákveðið var að Haraldur hætti störfum sem ríkislögreglustjóri um áramót og segir að um sameiginlega ákvörðun þeirra tveggja hafi verið að ræða. 

„Vegna þess gengum við, að hans ósk, til samninga um starfslok. Inni í þeim samningi er kveðið á um að ég geti leitað til hans vegna ýmissa mála er tengjast lögreglunni,“ segir Áslaug Arna.

Hún segir að þrátt fyrir ósætti í lögreglunni hafi Haraldur mikla reynslu og þekkingu á lögreglunni í heild sinni. „Hann hefur verið þarna í 22 ár og ég held að reynsla hans geti nýst mér,“ segir ráðherra. 

Tekur frekar undir með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu

„Ég mun taka stefnumarkandi ákvarðanir og leiða þá vinnu áfram sem ég hyggst fara í með lögreglunni á næsta ári,“ segir Áslaug Arna og bætir við að hún sé ekki sammála orðum Úlfars:

„Ég tek frekar undir með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, sem var þó í þeim hópi lögreglustjóra sem voru ósáttir við Harald.“

Áslaug Arna segir að ummæli Úlfars hafi ekki nein áhrif á störf hans og það sé hægt að hafa skoðanir á starfslokasamningi Haraldar. 

„Það getur vel verið umdeilanlegt enda á það frekar að vera undantekning en ekki regla að svona samningar séu gerðir,“ segir Áslaug Arna.

Hún bætir við að Haraldur hafi átti langan tíma eftir af skipun sinni og strangar reglur gildi um opinbera starfsmenn en samningurinn sé á grundvelli laga sem tryggi sterka réttarstöðu opinberra starfsmanna.

„Ég er sátt við samninginn og held að hann og nýtt lögregluráð komi lögreglunni til góða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert