„Varúð! Sleðagata“

Miklabraut vorið 1968. Umferð til austurs á öndverðri akrein við …
Miklabraut vorið 1968. Umferð til austurs á öndverðri akrein við það sem varð með hægri breytingunni. Ljósmynd/Ólafur K. Magnússon

Svokallaðar sleðagötur voru stór hluti af lífi barna hér á árum áður er þau renndu sér áhyggjulaus niður umferðargötur í snjónum. Göturnar voru í flestum tilfellum lokaðar bílum á meðan krakkanir léku sér til að fyrirbyggja hættu. 

Færsla Jens Elíassonar um slíkar götur sem hann hann setti á Facebook-síðuna „Gamlar ljósmyndir“ hefur fengið góð viðbrögð þeirra sem horfa hlýlega til þessara vetrarminninga.

Þessi mynd sem Ólafur K. Magnússon tók fylgdi Facebook-færslunni frá …
Þessi mynd sem Ólafur K. Magnússon tók fylgdi Facebook-færslunni frá Jens. Ljósmynd/Skjáskot af Facebook

Gömlu ljósmyndina fann hann í bókinni Ísland í aldanna rás eftir Illuga Jökulsson. Myndina tók Ólafur K. Magnússon, sem starfaði lengi sem ljósmyndari á Morgunblaðinu, árið 1956 af drengjum að leik við Stýrimannastíg í Reykjavík við skilti þar sem á stendur „Varúð! Sleðagata“.

„Enginn að æsa sig“

„Ég var þarna í skólanum á Öldugötunni og man alveg eftir því þegar Stýrimannastígnum var lokað. Við vorum þarna í Vesturbænum og ég man alveg eftir þessum sleðagötum,“ segir Jens, sem er fæddur 1953. Hann talar sérstaklega um árin 1962 til 1964. „Þarna var ég bara 10, 11 ára polli.“

Hann skemmti sér vel á sleðanum og man eftir því að foreldrar hafi jafnvel rennt sér með börnunum. Ekkert var kvartað yfir uppátækinu. „Þetta var engin umferð eins og er núna. Fólkið bjó þarna í götunum og það var enginn að æsa sig upp á móti þessu. Það áttu ekki öll heimili bíla eins og í dag. Á mínu heimili var aldrei neinn bíll.“

Jens segir vanta fleiri brekkur fyrir krakkana til að renna sér í dag, sérstaklega í eldri hverfin í borginni. „Þarna voru krakkarnir miklu meira úti að leika sér heldur en í dag. Núna eru þetta bara tölvurnar, þær eru komnar í staðinn.“

Börn að leik í snjónum.
Börn að leik í snjónum. mbl.is/Árni Sæberg

Renndi sér á sleða niður Miklubraut

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir var fimm ára þegar hún flutti á Miklubraut 82. „Þá vorum við bara komin upp í sveit. Þetta er næst efsta húsið og beint í austur þar voru kartöflugarðar og lítil hús og svo kom bara vegurinn út úr bænum og alls konar dýr úti um allt á þessu svæði. Á veturna þá var það lítil umferð að ég man eftir mér á sleða niður Miklubrautina,“ segir hún og á við þegar hún var átta til níu ára, í kringum 1945 til 1955.

Hún renndi sér á sparksleða svokölluðum, með kjálkum og sæti enda engar snjóþotur komnar fram á sjónarsviðið. Slíkan sleða segir hún þekktan Dalvík. Þar fari eldri konur með hann út í búð og hengi á hann matvörur.

mbl.is/Eggert

Enginn bíll sjáanlegur

Þrátt fyrir að Miklabrautin hafi ekki verið lokuð sleðagata segist Þórunn hvergi hafa verið smeyk. „Nei, bílarnir voru svo fáir. Pabbi minn flytur inn bíl 1955 og þá var enginn bíll sjáanlegur frá Miklubraut 68 og upp í 90,“ rifjar hún upp en á þessum tíma þurfti leyfi til að eignast bíl vegna gjaldeyrishafta. „Það sem var hættulegt var þegar strákarnir vildu teika bíla.“

Þórunn man eftir því að hafa sokkið með snjóinn upp í mjaðmir þegar hún fór yfir Klambratún á leiðinni í Barnaskóla Austurbæjar. Hún lék sér í stillansinum þegar verið var að byggja Sigvaldablokkina við Skaftahlíð og bjó til blómakransa með vinkonum sínum þar sem Kringlan er núna. „Þetta var ævintýraveröld,“ segir hún og talar um „algjörlega frábæra“ bernsku.

Hún saknar þess að sjá ekki fleiri skíðabrekkur í Reykjavík. Til að mynda segir hún brekkurnar í Seljahverfinu og Ártúnsholtinu gríðarlega vinsælar.

„Fækka beri sleðagötum“

Í grein Morgunblaðsins frá 20. desember 1964, eða fyrir tæpum 55 árum, er greint frá tillögum slysavarnarnefndar Reykjavíkurborgar til að sporna við slysum sem meðal annars snúast um að „fækka beri sleðagötum svo sem frekast er unnt, en gera þess í stað opin svæði, sem fyrir eru í borginni að vetrarleikvæðum fyrir börnin“.

Fram kemur að í flestum ef ekki öllum tilfellum liggi sleðagatan að umferðargötu og þá oftast að fjölfarinni götu. Öllum ætti því að vera ljóst sú hætta sem slíkir vetrarleikir hafi í för með sér.

Skjáskot af timarit.is

Telja sig hindraða með lokun gatnanna

„Nefndarmenn gera sér ljóst, að íbúar við sleðagötur, svo og aðrir vegfarendur, telja sig oft verulega hindraða með lokun gatnanna, en svo séu aftur aðrir, sem álíti mikla nauðsyn, að börnin hafi til afnota lokaðar götur til vetrarleikja, og þar eigi að banna alla umferð. Með fyrrnefnd tvö sjónarmið í huga telur nefndin, að fullt tillit verði að taka til þeirra, er heima eiga við sleðagötur, að réttur íbúanna þar verði sem minnst skertur, jafnframt því þó, að fyllsta öryggis verði ávallt tryggt börnunum, sem þar eru að leik,“ segir í áliti nefndarinnar.

Lagt er til að stefnt verði markvisst að því að því að útbúa opin leiksvæði til vetrarleikja barna og fækka sleðagötum.

Gátu ekki stöðvað sig 

Til marks um hættuna sem gat stafað af sleðagötum er hér tilvitnun í frétt úr Þjóðviljanum frá 3. janúar 1960:

„Um kl. 2 e.h. í gær varð það slys á gatnamótum Bergstaðastrætis og Bjargarstígs að tveir drengir á sleða urðu fyrir bifreið og skrámuðust nokkuð. Voru þeir báðir fluttir á slysavarðstofuna, en meiðsli þeirra reyndust ekki alvarleg. Slysið varð með þeim hætti, að drengirnir komu á sleða niður Bjargarstíginn, sem er sleðagata, en gátu ekki stöðvað sig á gatnamótunum og runnu út á götuna og fyrir bifreiðina, er bar að í því bili.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert