RÚV bregst við umræðu vegna fréttaflutnings

Fréttastofa RÚV sendi frá sér tilkynningu fyrr í kvöld til að árétta nokkur atriði vegna umræðu, meðal annars á Alþingi, um fréttaflutning í óveðrinu í síðustu viku.  

Þar er meðal annars brugðist við yfirlýsingum um að almenn upplýsingagjöf til íbúa í versta veðrinu hafi brugðist.

„Sautján útvarpsfréttatímar eru daglega fluttir á Rás 2 á virkum dögum auk styttri fréttayfirlita. Í þeim var farið yfir veðrið, færð, rafmagnsleysi og aðrar aðstæður eftir því sem þær upplýsingar voru tiltækar,“ segir í tilkynningunni.  

„Aðstæður voru hins vegar slíkar að upplýsingar voru ekki alltaf fáanlegar og stundum voru upplýsingar frá einni stofnun þvert á upplýsingar frá annarri. Ítrekað kom fram að ekki væri hægt að segja til um hvenær rafmagn kæmist aftur á þar sem það var farið. Í örfá skipti var í lok útvarpsfréttatíma vísað á vef RÚV með þeim skilaboðum að þar væri ítarlega fjallað um veðrið og áhrif þess enda ótakmarkað rými á vefnum. 

Útvarpsfréttatímar RÚV á heila tímanum, sem alla jafna eru  3-5 mínútur, voru iðulega lengri þessa daga auk þess sem dagskrárgerðarmenn á Rás 2 fluttu hlustendum nýjustu tíðindi þegar þau bárust. Þá eru ótaldar hádegisfréttir og umfjöllun í Speglinum,“ segir einnig í tilkynningunni.

„Fréttastofan er meðvituð um að víðtæk áhrif óveðursins og gríðarlega erfiðar aðstæður viðbragðsaðila höfðu áhrif á upplýsingagjöf og þar með fréttaflutning af einstökum svæðum. Umfjöllun og fréttaflutningur RÚV var engu að síður mikill og ítarlegur í öllum þremur miðlum. Vægi útvarpsfrétta var enn mikilvægara en ella vegna rafmagnsleysis og um það var fréttastofan meðvituð og miðlaði nýjustu upplýsingum þangað um leið og þær lágu fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert