Borgin bótaskyld í „ungbarnahristingsmáli“

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í málinu í dag.
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í málinu í dag. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Reykjavíkurborg til þess að greiða fjölskyldu ungs drengs samtals átta milljónir króna í bætur vegna meðferðar barnaverndarnefndar Reykjavíkur á máli drengsins, en í lok maí 2013 kom upp grunur um að foreldrarnir hefðu hrist drenginn, sem var þá níu mánaða gamall.

Hann var vistaður utan heimilis um fjögurra mánaða skeið í kjölfarið og lögregla rannsakaði málið, en felldi rannsókn sína niður um það bil ári eftir að hún hófst og barnaverndaryfirvöld svo í kjölfarið.

Foreldrar drengsins segja að málið hafi fengið mikið á fjölskylduna, samkvæmt því sem fram kemur í dómi héraðsdóms, og telja foreldrarnir að þetta mál hafi valdið því að þau flosnuðu bæði upp úr námi og upplifðu streitu og vanlíðan. Þau hafa slitið samvistir síðan málið kom upp og segja málsmeðferðina hafa valdið þeim miklum skaða, bæði andlegum og fjárhagslegum.

Rætt var við foreldrana og fjallað um málið í fréttaskýringarþættinum Kveik í nóvember árið 2017, en þá skömmu fyrr hafði ríkið viðurkennt bótaskyldu í þessu máli vegna ólögmætrar málsmeðferðar lögreglu og Barnaverndarstofu.

Mál þetta kom inn á borð barnaverndaryfirvalda vegna áverka sem níu mánaða gamall drengurinn var með eftir að hafa dottið í gólfið, er hann var að æfa sig að standa. Barnaspítali Hringsins tilkynnti grun um heilkenni ungbarnahristings í kjölfarið.

Í dómi héraðsdóms segir að rétt hafi verið hjá barnaverndarnefnd borgarinnar að hafa aðkomu að málinu í upphafi, en frá því um miðjan júní árið 2013, þegar álitsgerð barnalæknis drengsins sagði til um að ólíklegt væri að barnið hefi verið hrist og allt þar til málsmeðferð barnaverndarnefndar lauk, hafi málsmeðferðin „farið úrskeiðis og verið svo verulega áfátt“ að það leiði til bótaskyldu Reykjavíkurborgar gagnvart drengnum, foreldrum hans og einnig eldri systur drengsins. Fallist var á að móðir drengsins hefði hlotið varanlegan skaða vegna málsmeðferðarinnar.

Reykjavíkurborg þarf að greiða hverju um sig tvær milljónir króna í bætur, samtals átta milljónir, auk þess sem borgin þarf að greiða 2,25 milljónir í málskostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert