Betra að fá ekki jólabónusinn

Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi.
Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins og „ræðukóngur“ Alþingis í haust, hefur fengið gífurleg viðbrögð við ræðu sinni á Alþingi á dögunum þar sem hann gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að mismuna fólki við greiðslu jólabónuss.

Bæði hefur fólk haft samband við hann sem fékk engan jólabónus og aðrir sem hafa bent honum á að ekki væri nóg með það að jólabónusinn þeirra væri skertur heldur skerti bónusinn sérstakar húsaleigubætur þeirra. Fyrir vikið er þetta fólk að tapa á því að fá jólabónusinn.

„Okkur ber skylda til að sjá til þess að við séum ekki að láta fólk fá einhvern pening í hendurnar sem skilar sér í tapi. Það er grafalvarlegt mál og okkur til skammar að við skulum vera með svoleiðis kerfi. Það á að vera forgangsmál að breyta þessu, einn, tveir og þrír,“ segir Guðmundur Ingi.

Keðjuverkandi skerðingar

Spurður nánar út í skerðingarnar vegna 44 þúsund króna jólabónussins sem öryrkjar fá segir hann að ef fólk er með lífeyrissjóð, sérstaka uppbót og sérstakar húsaleigubætur skerðast þessar greiðslur í öllum tilvikum. „Það verða keðjuverkandi skerðingar úti um allt kerfið og á endanum uppgötvar fólk að það hefði verið betra að fá þetta ekki.“

Þingmaðurinn kveðst jafnframt hafa stutt fjárlögin vegna þess að í fjáraukalögum var ákveðið að tíu þúsund krónur myndu renna til öryrkja fyrir jólin, án skerðinga.

Alþingi Íslands.
Alþingi Íslands. mbl.is/​Hari

Gefur jólabónusinn sinn

Í pontu um daginn talaði Guðmundur Ingi um 180 þúsund króna óskertan jólabónus þingmanna. Spurður segist hann helst vilja snúa hlutunum við þannig að öryrkjar fái þennan pening en þingmenn 44 þúsund krónurnar.

Sjálfur gefur hann jólabónusinn sinn til þeirra sem þurfa meira á honum að halda en hann og hefur þingmaðurinn gert þetta á hverju ári síðan hann settist á þing 2017. „Ég er búinn að velja allskonar hjálparstofnanir og þar sem þörf er á,“ segir hann, spurður hvað hann gerir við sinn jólabónus, sem er um 100 þúsund krónur eftir skatt. „Ég hef verið hinum megin við borðið. Ég veit hvernig þetta er, ég var þar í mörg ár.“

Hélt að Píratar yrðu á toppnum

Fyrr í vikunni var greint frá því að Guðmundur Ingi hefði verið sá sem talaði mest á Alþingi í haust. Hann flutti 231 ræðu og athugasemd og samtals talaði hann í 637 mínútur, eða tæplega 11 klukkustundir.

Þingmaðurinn segir upplýsingarnar hafa komið sér mjög í opna skjöldu því sjálfur hélt hann að hann yrði nálægt topp tuttugu og reiknaði með því að Píratar eða aðrir stæðu honum langtum framar. Reyndar var það svo að hársbreidd á eftir honum var Píratinn Björn Leví Gunnarsson með 230 ræður og athugasemdir.

Björn Leví Gunnarsson Pírati lenti í öðru sæti á eftir …
Björn Leví Gunnarsson Pírati lenti í öðru sæti á eftir Guðmundi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjálfsagður hlutur, ekki kostnaður

Guðmundur Ingi útskýrir þennan langa ræðutíma sinn með því að segjast einfaldlega hafa mikið fram að færa, sérstaklega gagnvart öryrkjum, eldri borgurum og láglauna fólki. „Það er voðalega skrítið að alltaf þegar er verið að tala um að gera eitthvað fyrir þá sem mest þurfa á að halda og lifa eiginlega í fátækt þá er það kostnaður. Ég get ekki sætt mig við það. Að lifa af í þessu landi, geta haft húsnæði, klæði, lyf og læknisþjónustu á ekki að vera kostnaður heldur sjálfsagður hlutur,“ greinir hann frá.

Einnig vill hann styðja öll góð málefni á þingi, sama frá hvaða flokki þau koma, og hefur hann af þeim sökum flutt fleiri ræður í haust en áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert