Bilun tengist ekki endilega niðurskurði

mbl.is/​Hari

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir ekki hægt að slá neinu föstu um það að stór bilun í kerfi Veitna tengist með einhverjum hætti Planinu, fimm ára hagræðingaráætlun hjá Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfélagi Veitna, sem lauk árið 2016. Reykjavíkurborg er stærsti eigandi Orkuveitu Reykjavíkur og því einnig stærsti eigandi Veitna.

Planið svokallaða fól meðal annars í sér frestun á fjárfestingum en í dag kom upp stærsta bilun í áratugi hjá Veitum þegar ein aðalæð hitaveitunnar í Reykjavík fór í sundur.

Borgin þurfi að vera viðbúin bilunum

„Síðan Planinu lauk hafa Veitur verið í gríðarlega umfangsmiklum endurbótum á viðhaldsverkefnum í borginni eins og fólk veit. Ég held að það sé miklu frekar þannig að í stóru veitukerfi má búast við því að svona geti gerst þegar raki kemst að afmörkuðum þætti í kerfinu og tæring verður,“ segir Dagur.

„Við þurfum alltaf að vera viðbúin því. Við höfum verið í gríðarlegu fjárfestingarátaki undanfarin ár og verðum áfram. Bæði í tengslum við endurnýjun eldri lagna en líka þá miklu uppbyggingu sem er í borginni.“

Áhrif bilunarinnar eru umfangsmikil en heita­vatns­laust var vest­an Snorra­braut­ar og að Seltjarn­ar­nesi. Spurður hvort það sé eðlilegt að gera ráð fyrir bilunum sem þessum og hvort það geti ekki verið hættulegt ef sambærilegar bilanir koma ítrekað upp segir Dagur:

„Ef allir væru óviðbúnir og enginn væri í færum til þess að grípa strax inn í þá gæti það orðið hættulegt en við búum að mjög öflugu fyrirtæki sem Veitur eru með mjög vel þjálfað starfsfólk sem fór beint í þetta.“

Dagur bætir því við að áhrif þess að lögnin hafi farið í sundur séu sérstaklega mikil vegna staðsetningar hennar „og því að til þess að gera hratt og vel við þá þurfti í raun að stöðva rennsli frá dælustöð sem er þarna í Austurhlíðinni“.

Margir komu að lagfæringu lagnarinnar.
Margir komu að lagfæringu lagnarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umfangið meira en fyrir örfáum árum

Á mánudag birtist umfjöllun í Morgunblaðinu um kulda í Kórahverfi í Kópavogi en þar kvörtuðu íbúar undan kulda í húsum vegna skorts á heitu vatni til upphitunar. Vildi einn íbúinn meina að uppbygging í kerfi Veitna hefði ekki haldist í hendur við aukinn íbúafjölda á svæðinu. 

Spurður hvort erfitt hafi reynst að endurnýja kerfið í samræmi við aukinn íbúafjölda og þéttingu byggðar segir Dagur:

„Það hefur gengið mjög vel en auðvitað er umfangið miklu meira en það var fyrir örfáum árum. Við gerum ráð fyrir því að það verði áfram alla vega næstu fimm árin, þetta mikla umfang í fjárfestingum borgarinnar, Veitna og Orkuveitu Reykjavíkur.“

Í kvöldfréttum RÚV sagði Ólöf Snæhólm Bald­urs­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi Veitna, að æðin sem fór í sundur væri frá níunda áratugnum. Eðlileg ending lagna sem þessara væri 50 til 70 ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert