Ekkert draumaveður fyrir flugeldavini

Þeir sem eru viðkvæmir í öndunarfærum geta fagnað veðurspá morgundagsins en skotglaðir munu líklega hryggjast lítið eitt vegna þess að draumaveður til að skjóta upp flugeldum verður hvergi á landinu á morgun, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. 

„Á morgun verður suðlæg átt, allhvöss og rigning en bjart og þurrt að kalla norðaustan til. Svo dregur úr vindi á landinu sunnan- og austanverðu annað kvöld en áfram verður hvasst norðvestan til. Þá verða skúrir á vestanverðu landinu,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

„Þetta lítur ágætlega út hérna á höfuðborgarsvæðinu. Þar verða suðaustan 5-10 metrar á sekúndu og skúrir en hugsanlega dembur.“

Skást í borginni og á Austurlandi 

Skásta veðrið verður veðrið á höfuðborgarsvæðinu og Austurlandi, að sögn Eiríks. „Það verður skást en ekki frábært,“ segir Eiríkur. 

Um áramótin kemur oft upp mikil loftmengun vegna flugelda, líkt og alþjóð veit. Að sögn Eiríks hjálpar úrkoma við að minnka mengun í andrúmsloftinu en mengunin hverfur þó ekki.  

„Mengunin blandast úrkomunni og henni rignir niður svo það er ekki sama loftmengun og venjulega. Mengunin náttúrulega hverfur ekki, hún er enn þá þarna en það verður ekki jafn mikil loftmengun.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert