Áramót í nánd en heimsendir ekki

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerir loftslagsmál og svokölluð „ímyndarstjórnmál“ að umtalsefni …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerir loftslagsmál og svokölluð „ímyndarstjórnmál“ að umtalsefni í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Öðrum áratug 21. aldar er að ljúka (samkvæmt almennu skilgreiningunni, ekki þeirri stærðfræðilegu). Á heimsvísu var áratugurinn líklega sá besti í mannkynssögunni. Velferð hefur aldrei verið eins almenn. Sárafátækt hefur aldrei verið eins lítil á heimsvísu,“ skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag.

Hann gerir loftslagsmál og svokölluð „ímyndarstjórnmál“ að umtalsefni í grein sinni, auk annars. Sigmundur segir að þrátt fyrir að áratugurinn hafi verið góður, jafnvel sá besti, mætti ætla annað af umræðu undanfarinna missera.

„Halda mætti að eftir margar góðar aldir væri heimurinn nú á heljarþröm. Sumu „nútímafólki“ þykir jafnvel óviðeigandi að benda á það jákvæða. Þá er spurt „hvað með Amasonfrumskóginn, alþjóða fjármálakerfið, stöðu mannréttinda og stríðin í Jemen og Sýrlandi“. Allt eru þetta mikil áhyggjuefni. Vegna borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi er mannfall í stríði nú meira en það var á fyrsta áratug aldarinnar (þegar það náði lágmarki). Það breytir þó ekki því að þegar litið er á heimsmyndina í heild hefur staðan sjaldan eða aldrei verið eins góð,“ skrifar Sigmundur Davíð, sem telur of marga líta fram hjá heildarmyndinni og langtímaáhrifum.

„Þeir virðast telja að ef einhver bendi á eitthvað gott sé viðkomandi þar með að halda því fram að allt sé gott. Þeir hinir sömu leita gjarnan að hinu neikvæða og telja það svo til marks um að allt sé slæmt. Það að líta hvorki á heildarmynd né langtímaáhrif er meðal helstu pólitísku vandamála samtímans. Svo kölluð ímyndar- eða sýndarstjórnmál byggjast enda á vandamálum en ekki lausnum. Þeim mun meiri sem vandinn er, þeim mun meiri er upphefðin af því að sýnast takast á við hann. Vandamálið verður þannig styrkleiki en lausnir og árangur draga úr þeim styrkleika,“ ritar formaðurinn, sem telur að mögulega séu vestræn samfélög orðin fórnarlömb eigin árangurs.

„Of margir eru farnir að líta á allt hið góða sem sjálfgefna hluti. Hin nýja ímyndarpólitík gerir ekki bara lítið úr grunngildum samfélagsins heldur lítur jafnvel á það sem markmið að brjóta þau niður. Í fyrsta skipti um margra alda skeið standa Vesturlönd nú frammi fyrir því að áhrifaöfl berjist meðvitað fyrir því að undið verði ofan af árangri og framþróun fyrri kynslóða. Samfélagslegum, efnahagslegum og jafnvel vísindalegum árangri,“ skrifar Sigmundur Davíð, sem segir „áhrif hinna nýju stjórnmála“ óvíða sjást jafn glögglega og í umhverfismálunum.

„Þar birtist bókstafstrúarsöfnuðurinn í sinni skýrustu mynd. Ein ófrávíkjanleg (en um leið þversagnakennd) stefna, efasemdir og spurningar bannaðar að viðlagðri útskúfun, sýndaraðgerðir, óskeikulir æðstuprestar og yfirvofandi heimsendir vegna hegðunar hinna syndugu.

Áhrifamiklir hópar tala raunverulega um að það séu 11 ár í dómsdag. Kröfur um aðgerðir miðast við að mannkynið þurfi að hætta nettó losun kolefnis fyrir árið 2025 eða farast ella. Hvorki er þó útskýrt hvernig það sé framkvæmanlegt né hverjar afleiðingarnar yrðu,“ ritar formaðurinn.

Áramótagrein Sigmundar Davíðs má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, gamlársdag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert