Björgunarsveitir „maður ársins“

Björgunarsveitarfólk þurfti að grafa upp hross í óveðrinu fyrir jól.
Björgunarsveitarfólk þurfti að grafa upp hross í óveðrinu fyrir jól.

Maður ársins er ekki maður, heldur björgunarsveitir. Þetta er samdóma mat hlustenda Rásar 2 og Bylgunnar, en báðir miðlar efndu til kosninga um útnefninguna á vef sínum.

Björgunarsveitir hafa staðið í ströngu í ár sem og fyrri ár, en álagið náði hámarki í óveðrinu mikla sem gekk yfir land fyrr í mánuðinum er sveitirnar voru sendar í yfir 1.000 útköll. Hefur tímasetningin sennilega sitt að segja, enda þykir heppilegra að toppa nálægt áramótum til að eiga kost á útnefningunni.

Í kjöri Bylgunnar var 5551 atkvæði greitt, og hlutu sveitirnar um 38%. Fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan var annar í kjöri með tæp 14% atkvæða og Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja og uppljóstrari, þriðji með 13%. 

Ekki voru birtar nánari upplýsingar um niðurstöður könnunar Rásar 2 en þær að björgunarsveitir hefðu borið sigur úr býtum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert