Bann við akstri gegn rauðu ljósi ekkert nýtt

Umferðarlögreglan framfylgir nú nýjum umferðarlögum sem tóku gildi um áramótin.
Umferðarlögreglan framfylgir nú nýjum umferðarlögum sem tóku gildi um áramótin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan vinnur nú eftir nýjum umferðarlögum sem tóku gildi um áramótin. Samkvæmt Árna Friðleifssyni, aðalvarðstjóra umferðardeildar, er ekkert í lögunum sem ætti að koma ökumönnum á óvart. 

„Við erum að sinna okkar málum hvern einasta dag ársins og erum þar af leiðandi byrjaðir að vinna eftir þeim,“ segir Árni í samtali við mbl.is. 

Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Sigurður Bogi

„Breytingarnar á umferðarlögunum í sjálfu sér eru ekki nýjar. Það er frekar „common sense“ að þú megir ekki fara yfir á rauðu ljósi, það er ekkert nýtt. Þú átt að hafa bæði framljós og afturljós kveikt, það er ekki heldur neitt nýtt við það,“ segir Árni, en með nýju lögunum var verið að lögfesta ýmis atriði sem hafa einungis verið siðir eða hefðir í umferðinni eða verið tekin fram í reglugerðum. 

„Það sem er kannski helst nýtt er að lögreglan getur tekið betur á til dæmis bílum sem leggja öfugt við akstursstefnu. Það mátti ekki samkvæmt gömlu lögunum en úrræðin okkar voru erfið í kringum það. Nú er búið að einfalda úrræðin,“ segir Árni. 

„Ákvæði um rafbíla og rafbílastæði eru líka nýjung í lögunum sem bæði við og kannski aðrir erum ekki orðnir vanir. En rafbílar sem eru lagðir í rafbílastæði verða til dæmis að vera í hleðslu, annars er ekki heimilt að leggja í stæðin.“


Samgöngustofa
hefur tekið saman helstu nýmæli laganna sem leysa af hólmi eldri umferðarlög frá árinu 1987. Á meðal breytinga er að ökumaður telst ekki geta stjórnað ökutæki ef vínandamagn mælist 0,2% í blóði hans, en áður var það 0,5%. Refsimörk verða þó áfram 0,5%. 

Ekki verið að að breyta að ástæðulausu

„Við erum svona hægt og rólega að kynna okkur lögin líka og byrjaðir að vinna eftir þeim. Þetta kemur allt í rólegheitunum,“ segir Árni og bætir við að nýmæli í lögunum séu ekki gerð að ástæðulausu.

„Eins og alltaf með okkur sem búum hérna á þessu landi, þá hafa menn mismunandi skoðanir á öllu þannig að menn hafa mismunandi skoðanir á nýjum umferðarlögum eins og öðru. Auðvitað eru alltaf einhverjir sem sjá öllu til foráttu. En svona heilt yfir er búið að nútímavæða umferðarlögin og flestir eru bara sammála um að starfa og vinna í þessu umhverfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert