„Við hljótum að geta gert betur“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er rétt að við erum á eftir áætlunum sem hafa verið gerðar varðandi uppbygginguna,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is spurður um stöðu framkvæmda við snjóflóðavarnir og gagnrýni á að fjármunir sem innheimtir hafa verið á liðnum árum vegna málaflokksins hafi ekki verið nýttir til að sinna honum.

„Það var skapaður sérstakur gjaldstofn til þess að geta fjármagnað þetta. Hann hefur verið til staðar en við höfum ekki að fullu nýtt hann í þessum tilgangi. Að hluta til skýrist það af því að menn voru í hallarekstri á árunum eftir hrunið og svo hafa menn verið að forgangsraða fjármunum með aðeins öðrum hætti,“ segir fjármálaráðherra enn fremur.

„Þannig að ég get tekið undir það að við hljótum að vilja láta framkvæmdahraðann ráðast af þeirri fjármögnun sem á að standa á bak við þetta. Það er að segja að skila til framkvæmdanna því sem innheimt er af fasteignum úti um landið í auknum mæli,“ segir Bjarni.

Tæki áratugi á núverandi framkvæmdahraða

„Það hefur verið sagt að ef við myndum halda áfram á núverandi framkvæmdahraða þá gæti þetta tekið áratugi sem við höfum einsett okkur að gera, byggja varnargarða þar sem við teljum að hættusvæði séu til staðar. Við hljótum að geta gert betur en það.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Spurður hvort stjórnvöld þurfi ekki skoða þessi mál alvarlegar segir Bjarni svo vissulega vera en ítrekar að það séu skýringar á því hvers vegna tafir hafi orðið á framkvæmdum við snjóflóðavarnir. Vísar hann þar til hallareksturs eftir bankahrunið og aðra forgangsröðun.

„Við erum að byggja ákvarðanir á útgjaldahliðinni á grundvelli stefnu til að mynda um afkomuna þannig að þó að við séum með þennan tekjustofn er ekki þar með sagt að það sé sjálfskrafa svigrúm á útgjaldahliðinni. Við þurfum þá að forgangsraða í þágu þess að nýta þá fjármuni,“ segir Bjarni enn fremur í þessum efnum.

Spurður um viðbrögð við gagnrýni á hönnun varnargarðsins fyrir ofan Flateyri, hægt hefði til að mynda verið að koma í veg fyrir að snjóflóðið félli á höfnina, segir ráðherrann:

„Ég myndi vilja eftirláta sérfræðingunum að tjá sig um það að hvaða marki þessi mannvirki stóðust álagið. En auðvitað blasir það við að þegar það fyllist hús af snjó og fólk verður undir snjófargi sem lagst er til hvílu þá er eitthvað ekki eins og það á að vera.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert