Átakshópi um ofanflóðavarnir ætlað að vinna hratt

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræðir stöðuna í stjórnmálum á Alþingi í …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræðir stöðuna í stjórnmálum á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heitar umræður eru á fyrsta þingfundi ársins á Alþingi, en formenn flokkanna eða staðgenglar þeirra hafa tekið til máls um stöðuna í stjórnmálum. Á meðal þess sem rætt hefur verið um í dag er rekstur heilbrigðiskerfisins, staða efnahagsmála, framkvæmdir vegna ofanflóðavarna og hugmyndir um hálendisþjóðgarð.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var fyrst á mælendaskrá og lagði hún áherslu það sem hún kallaði „stóru málin“, þ.e. rekstur heilbrigðiskerfisins, auk þess sem hún ræddi stöðu efnahagsmála. Þá lagði Katrín sérstaka áherslu á afleiðingar snjóflóðanna og umræður um ofanflóðavarnir og nýtingu ofanflóðasjóðs.

Snjóflóðin vöktu alla til umhugsunar

Sagði Katrín að snjóflóðin sem féllu á Vestfjörðum fyrr í mánuðinum hafi vakið alla til umhugsunar og minnt á náttúruöflin og sagði að nú yrði stefnt að því að móta nýja áætlun um það hvernig hægt væri að flýta framkvæmdum til að styrkja ofanflóðavarnir.

Benti hún á að átakshópnum, sem hafi verið skipaður vegna málsins, væri ætlað að vinna hratt og sagðist búast við góðum tillögum sem kynntar yrðu á fundi Alþingis áður en þær yrðu kynntar opinberlega.

Í kjölfar andsvars Gunnars Braga Sveinssonar þingmanns Miðflokksins við ræðu hennar sagðist Katrín opin fyrir að að skoða hugmyndina um að skipuð verði sérstök stjórn yfir starfsemi Landspítalans. Lagði hún þó áherslu á að hún bæri fullt traust til stjórnenda og starfsfólks Landspítalans. 

„Ég útiloka ekki þá hugmynd,“ sagði hún, við spurningu Gunnars Braga.

Miðhálendisþjóðgarðurinn frábær hugmynd

Katrín minntist ekki á áform um hálendisþjóðgarð í ræðu sinni en svaraði spurningu Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um það hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir stjórnarsamstarfið ef Vinstri grænir ná ekki miðhálendisþjóðgarði í gegn.

Staðfesti Katrín að málið væri statt í samráðsgátt og að því ferli ætti að ljúka í dag. Sagði hún hugmyndina vera stóra og sagðist átta sig á að það væri mikilvægt að vanda sig í sambandi við áformin.

Hún teldi hugmyndina þó frábæra og kvaðst fullviss um að góðar lausnir fyndust á þeim vandamálum sem bent hefði verið á í sambandi við þjóðgarðinn, svo sem í sambandi við þátttöku heimafólks og stjórnun hans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert