„Bitur maður að kasta steinum úr glerhúsi“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vandar Guðmundi Ragnarssyni, fyrrverandi formanni …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vandar Guðmundi Ragnarssyni, fyrrverandi formanni Félags vélstjóra og málmtæknimanna, ekki kveðjurnar eftir viðtal við hinn síðarnefnda í Morgunblaðinu í dag. mbl.is/Hari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir ásakanir Guðmundar Ragnarssonar, fyrrverandi formanns Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM), í sinn garð og annarra núverandi forystumanna innan ASÍ vera dapurlegar og litaðar af biturð yfir því að hugmyndafræði hans og fyrrverandi stjórnenda ASÍ hafi verið hafnað af grasrót samtakanna.

Þetta segir Ragnar í samtali við mbl.is, en í morgun birtist í Morgunblaðinu viðtal við Guðmund þar sem hann sagði lýðskrumara hafa tekið völdin í verkalýðshreyfingunni og að popúlismi ráði þar ríkjum. Þá sagði hann núverandi forystu skorta öll tengsl við veruleikann og heilbrigða skynsemi og að ASÍ væri í rúst.

Segir Guðmund hafa verið í „gömlu klíkunni“ í ASÍ

Ragnar segir Guðmund skjóta í allar áttir í viðtalinu. „Það er erfitt að svara mönnum sem eru ekki í jafnvægi,“ segir hann og bætir við að það orðfæri sem Guðmundur noti sé eitthvað sem hann vilji ekki nota í almennri umræðu. Ragnar segir að þegar orð Guðmundar séu lesin þurfi að hafa í huga hvaðan hann komi. „Hann kemur úr gömlu klíku Alþýðusambandsins sem var undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar. Þeir voru innikróaðir af grasrótinni og félagsmönnum og bjuggu til hugmyndafræði sem var þeim þóknanleg og reyndu svo að selja félögum, sem þeir svo höfnuðu í atkvæðagreiðslu,“ segir Ragnar og á þar meðal annars við Salek-samkomulagið. Hann bætir svo við að sömu menn hafi verið felldir af grasrót félagsins í formannskosningum. „Fólk hafnaði hugmyndafræði þeirra.“

„Fyrir mér er þetta bitur maður að kasta steinum úr glerhúsi. Það er dapurlegt að hann komi svona fram við félagsmenn sína sem kusu hann út,“ segir Ragnar, en hann telur Guðmund með orðum sínum vera að tala niður félagsmenn ASÍ.

Ekki rétt að um háar kröfur sé að ræða

Spurður út í ásakanir Guðmundar um að núverandi forysta hafi komist til valda með því að byggja upp of miklar væntingar og sett viðmið sem séu með öllu óraunhæf segir Ragnar að þau séu síður en svo óraunhæfar. „Miðað við láglaunastefnuna sem hann [Guðmundur] og félagar hans stóðu fyrir á sínum tíma og átti að vera gerð í kringum Salek og var gerð af þröngum hópi manna sem þekkja ekki að vera á leigumarkaði eða á lágmarkslaunum og áttu að ákveða hversu mikið svigrúm væri í kerfinu og skipta því upp á milli hópa samfélagsins, þá tel ég það ekki rétt að þetta séu of háar kröfur,“ segir Ragnar.

Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður VM.
Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður VM.

Bendir hann á að lífskjarasamningurinn hafi verið hugsaður til að auka jöfnuð og hækka lægstu laun og telur hann að þar hafi forystan sýnt ábyrgð og tekið það svigrúm sem til staðar var. Hins vegar hafi stærsta atriðið í þeim samningum verið að lækka kostnað við að lifa. „Þar tel ég að hafi náðst mestur árangur.“ Vísar hann til húsnæðismála, leiguverndar og stuðnings við ungt fólk sem og skattabreytinga og samkomulags við hið opinbera um hámarkshækkanir. Þá segir Ragnar að verðbólga og vextir séu nú í sögulegu lágmarki sem komi lántökum mjög vel.

„Guðmundur ætti að líta sér nær,“ segir Ragnar og bætir við að Seðlabankinn hafi eftir eftir Salek-samkomulagið hækkað vexti nokkrum sinnum. „Hann getur ekki rökstutt mál sitt með neinu einasta móti og er svo sjálfur að tala um lýðskrum.“

„Höfrungahlaup“ notað grímulaust gegn verkalýðshreyfingunni

Spurður út í kröfur Eflingar í viðræðum sínum við Reykjavíkurborg og þau orð Guðmundar að slíkar hækkanir muni kalla á höfrungahlaupið margumtalaða segir Ragnar að hækkanir hjá einum hópi verði bara til þess að næsti hópur geti byggt á því og það sé ekkert höfrungahlaup heldur eðlileg þróun. „Höfrungahlaup er orð sem hefur verið notað grímulaust gegn verkalýðshreyfingunni,“ segir hann og bætir við að verkalýðshreyfingin verði sem hreyfing að styðja við að fólk geti lifað með reisn.

Þá segir hann kröfur Eflingar ná til tekjulægsta hópsins og það sé samstaða um það hjá verkalýðshreyfingunni að hækka þau laun. Segir hann þátttöku allt að fjögur þúsund félagsmanna VR í kröfugerðinni hafa sýnt fram á að stærstur hluti félagsmanna telji eðlilegt að leggja mesta áherslu á að hækka lægstu launin.

Segir hann höfrungahlaupið í raun bara fara að eiga sér stað þegar efri hópar taki krónutöluhækkun lægri hópa og setji hana í prósentur og reikni hækkunina upp allan stigann.

„Borgin virðist eiga nóg

Vísar Ragnar til þess að þegar komi að viðræðum Eflingar við borgina telji hann ljóst eftir að hafa skoðað fjármál borgarinnar að töluvert svigrúm sé til að bregðast við kröfunum. „Borgin virðist eiga nóg. Ætti frekar að passa sig í stjórnlausri framúrkeyrslu framkvæmda,“ segir hann og bætir við að frekar þurfi að taka til heldur en ráðast gegn stéttum starfsmanna borgarinnar.

Segist Ragnar styðja baráttu Eflingar og segist fagna því ef félagið nái fram betri kjörum en samið var um í lífskjarasamningnum. Ekkert í því samkomulagi hafi sett kvaðir um að ákveðnir hópar gætu fengið meira en aðrir. „Við höfum ekki umboð til að læsa aðrar stéttir inn ef aðrir fá meira.“ Vísar hann meðal annars til samninga á Akranesi þar sem tekist hafi að semja um 13 mínútna styttingu vinnudags meðan VR hafi náð 9 mínútum. „Á ég að stíga fram og kvarta yfir því?“ spyr Ragnar og svarar því að hann muni taka þann árangur með sér í næstu kjaraviðræður og byggja ofan á því.

Lesa má viðtalið við Guðmund í heild sinni í Morgunblaðinu hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert