Ögmundur genginn aftur í þjóðkirkjuna

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður.
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég var rétt kominn af unglingsaldri þegar ég sagði mig úr þjóðkirkjunni. Ekki vegna þess að ég hefði á henni andúð. Ég vildi einfaldlega standa utan allra trúarstofnana.“ Þannig kemst Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs, að orði í grein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þar sem hann segist hafa gengið aftur í þjóðkirkjuna. 

Ögmundur rekur síðan í ítarlegu máli hugleiðingar sínar um trúarbrögð. Margt væri fagurt í flestum trúarbrögðum en manneskjunni hefði tekist að afskræma það eins og margt annað. „Það er ofstækið, nái það að skjóta rótum, sem getur gert trúarbrögðin ill eins og dæmin sanna.“

„Ég vil ekki borga til kirkju,“ segir Ögmundur að góðvinur hans hafi sagt við hann á dögunum. Hann hafi svarað: „Það vildi ég ekki heldur. En svo deyr mamma manns og þá vill maður að orgelið sé í lagi. Þetta er eins og að borga til verkalýðsfélagsins. Maður er ekki alltaf sáttur, en félagið þarf að vera þarna og þá er um að gera að styrkja það og styðja til góðra verka.“

Ögmundur segir að þegar allt komi til alls sé markmiðið með boðun kirkjunnar að styðja hið góða innra með fólki. „Varla er það til ills í viðsjárverðum heimi.“

Grein Ögmundar í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert