Snúið þegar menn hreyfa sig ekki

Enn hefur ekki verið boðað til nýs fundar í kjaradeilu …
Enn hefur ekki verið boðað til nýs fundar í kjaradeilu starfsmanna Eflingar hjá borginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvorki stendur til að samþykkja kröfur Eflingar um 400 þúsund króna desemberuppbót né flata leiðréttingu á alla starfsmenn Eflingar hjá Reykjavíkurborg. Þetta segir Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar borgarinnar, um stöðuna í kjaradeilu starfsmanna Eflingar. Harpa segir samninganefndina þó funda stíft til að reyna að finna flöt á málinu og þau séu frekar tilbúin að ræða leiðréttingu á einstaka hópa þar sem álag er mikið, eins hjá starfsmönnum á leikskóla.

Ekki hefur verið boðað til nýs fundar með deiluaðilum hjá ríkissáttasemjara, eftir að fundur sem átti að vera á mánudag var blásinn af. Sáttasemjari taldi ekki skila árangri að funda á þeim tímapunkti.

Enn verið að vinna með styttingu vaktavinnuviku

Harpa segir nú einnig verið að vinna að útfærslu á styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki, en það er einn af útgangspunktum Eflingar að því verði lokið áður en gengið verði frá nýjum kjarasamningi. „Það er eitthvað sem við þurfum að klára. Annaðhvort að klára það þannig að við klárum það ekki eða klárum það. Við þurfum alla vega að klára það samtal.“

Harpa Ólafsdóttir segir rök Eflingar ómálefnaleg.
Harpa Ólafsdóttir segir rök Eflingar ómálefnaleg. Ljósmynd/Aðsend

Harpa sagði við mbl.is á mánudag að lokið hefði verið við útfærsluna um síðustu helgi og til stæði að skrifað yrði undir breytingar á vinnuvikunni á þriðjudag, eftir kynningu í baklandinu. Það fór hins vegar ekki svo. Taka þurfti vinnuna aftur upp eftir kynninguna, þar sem ekki náðist sátt um útfærsluna. Harpa segir nú ekki liggja fyrir hvenær þeirri vinnu ljúki. „Það eru einhverjir þættir sem þarf að ræða til enda.“

Vilja ræða útfærslu gagnvart einstaka hópum

Það er töluvert þyngra hljóðið í henni nú heldur en í byrjun vikunnar og hún viðurkennir það. „Maður fer inn í þetta þannig að maður vonast til að allir aðilar komi til að leita lausna og sátta, en þegar menn hreyfa sig ekkert heldur, þá er þetta snúið. Eins og þau hafa stillt upp þá er rosalega erfitt að mæta þeim, það er bara þannig.“

Hún viðurkennir því að þau séu í basli. „En við erum að funda alla daga og reyna að finna einhvern flöt á málinu.“

Aðspurð hvort þau séu þá að reyna að fikra sig nær kröfum Eflingar segir Harpa þau alla vega ekki að fara að samþykkja kröfu um desemberuppbót sem lögð hefur verið fram, en greint hefur verið frá því að sú krafa hljóði upp á 400 þúsund krónur. Þá komi flöt leiðrétting á alla ekki til greina. „En við erum að hugsa leiðir þar sem þau benda á að það sé mikið álag, til dæmis á leikskólum. Það er þetta sem við viljum ræða. Við viljum ræða einhverja útfærslu gagnvart einstaka hópum en við erum ekki að fara í umframleiðréttingu eins og þau segja. Eins og gagnvart sorphirðumönnum sem eru nú þegar með 650 þúsund krónur í heildarlaun. Ég sé ekki hvernig við getum talað um að það sé einhver leiðrétting sem fari flöt ofan á alla ef það þýðir enn meiri umframhækkun gagnvart einhverjum ákveðnum hópum. Ég fæ mig ekki til að skilja að það yrði sátt um að það yrði leiðrétting.“

Ófaglærðir fengju 520 þúsund í grunnlaun 

Harpa segir rök Eflingar ekki málefnaleg og að mikilvægt sé að draga réttar tölur fram í dagsljósið. „Okkar tilboð eins og það stendur í dag, þá erum við að bjóða ófaglærðum deildarstjórum 520 þúsund í lok samnings og það eru bara meðaltalsgrunnlaun. Og ófaglærður starfsmaður verður kominn með vel yfir 400 þúsund krónur í grunninn í lok samnings.“

Hér að neðan má sjá meðaltalsgrunnlaun ófaglærðra starfsmanna á leikskólum eins og þau eru í dag og eins og þau yrðu í lok samningstímans, yrði tilboð borgarinnar samþykkt.

                                         Meðaltalsgrunnlaun          Meðaltalsgrunnlaun

                                                    í mars 2019                    1. janúar 2022

Starfsmaður á leikskóla                   311 þús. kr.                         421 þús. kr.

Deildarstjóri á leikskóla                   418 þús. kr.                         520 þús. kr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert