Með verstu veðrum á Suðurlandi

Kári blés nokkuð hressilega í dag.
Kári blés nokkuð hressilega í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ársvindhraðamet voru slegin á nokkrum stöðvum í ofsaveðrinu sem gekk yfir landið í nótt og morgun. Þetta veður er í flokki þeirra allra verstu á Suður- og Suðausturlandi, samkvæmt bloggfærslu Trausta Jónssonar veðurfræðings.

Hviðumet var sett á sjálfvirku stöðinni á Stórhöfða (57,5 m/s) - minna en mest mældist á mönnuðu stöðinni þar á árum áður. Árshviðumet var einnig sett á Hellu, við Vatnsfell, Vatnsskarðshóla, Árnes, Kálfhól, Mörk á Landi, Hjarðarland, á Hafnarmelum og Austurárdalshálsi,“ segir meðal annars í færslu Trausta.

Sömuleiðis voru sett ársvindhviðumet á vegagerðarstöðvunum við Blikdalsá, Markarfljót, í Hvammi, á Lyngdalsheiði og á Vatnsskarði, auk vindhviðunnar við Hafnarfjall sem fór í 71 m/s.

Meðalvindur í byggðum landsins í heild varð mestur kl.10 í morgun, 19,4 m/s. Síðustu 24 árin eru það aðeins fimm önnur veður sem ná svipuðum „árangri“, þar af tvö árið 2015, þann 14. mars og 7. desember. Hin eru eldri, 8. febrúar 2008, 10. nóvember 2001 og 16. janúar 1999,“ skrifar Trausti.

Hann ítrekar að veðrið sé í flokki með þeim allra verstu á Suður- og Suðausturlandi auk þess sem það sé líklega í flokki þeirra verstu á stöku stað á Faxaflóasvæðinu. Full ástæða hafi því verið til að veifa rauðum viðvörunarlit á þeim svæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert