„Trúi því að við munum hafa betur“

Sólveg Anna í verkfallsvörslu í leikskólanum Seljaborg fyrr í mánuðinum.
Sólveg Anna í verkfallsvörslu í leikskólanum Seljaborg fyrr í mánuðinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn samningafundur hefur verið boðaður í kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar, að sögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar.

Samninganefnd Eflingar fundaði alla helgina. „Við vorum að vinna okkar vinnu. Ég get ekki svarað því hvað hinir voru að gera en við bíðum eftir því að fundur verði kallaður,“ segir hún. „Þegar síðasti fundur var haldinn sögðum við að næst þegar fundur yrði kallaður yrði eitthvað á borðinu frá borginni sem hægt væri að taka raunverulega afstöðu til, ekki bara tímasóun.“

Í morgun hefur hún setið fjölmennan fund trúnaðarmanna hjá Reykjavíkurborg þar sem farið hefur verið yfir stöðu mála en ótímabundið verkfall starfsmanna Eflingar sem vinna hjá borginni hófst á miðnætti.

Samstöðu- og baráttufundur verður haldinn klukkan 13 í dag í Iðnó og hvetur Sólveig Anna alla til að láta sá sig. Verkfallsvarsla verður með sama hætti og áður í vikunni. Farið verður út í hópum og vinnustaðir heimsóttir.

Frá sáttafundi í lok síðasta mánaðar.
Frá sáttafundi í lok síðasta mánaðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhyggjur af skilningsleysi viðsemjenda

Verkfallið hefur mest áhrif á leikskóla, auk þess sem matarþjónusta í grunnskólum verður felld niður. Ef verkfallið stendur í lengri tíma gæti einnig þurft að loka grunnskólum því ekki má halda þeim opnum nema þrifið sé reglulega.

Spurð hvort hún hafi áhyggjur af stöðu mála ef verkfallið dregst á langinn segir hún að hún finni fyrir einlægum og heitum áhuga sinna félagsmanna fyrir því að sjá árangur nást í kjaradeilunni. „Ég hef áhyggjur af því hversu djúpt og mikið skilningsleysi viðsemjenda okkar er en þegar ég horfi á hóp minna félagsmanna sem vinna þessi störf og eru í þessu verkfalli og þeirra baráttuvilja þá trúi ég því jafnframt að við munum hafa betur í þessum slag,“ segir Sólveig Anna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert