Býst við skrefum í átt að bankasölu á næstu vikum

Bjarni Benediktsson væntir þess að hægt verði að stíga mikilvæg …
Bjarni Benediktsson væntir þess að hægt verði að stíga mikilvæg skref til að losa um eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka á næstu vikum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist vænta þess að ríkisstjórnin geti tekið „mikilvæg skref“ til að losa um eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka á næstu vikum. „Sala á hlut ríkisins getur hins vegar tekið tíma, aðstæður á mörkuðum eru breytilegar og rétt að sýna þolinmæði til að ná árangri,“ segir Bjarni í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Fyrirspurnin laut að orðalagi sem viðhaft er í nýrri eigendastefnu um hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem kynnt var á vef fjármálaráðuneytisins í gær. Þar segir að stefnt sé að því að selja allan eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka „þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi“.

Blaðamaður spurði hvenær búist væri við að þau „hagfelldu og æskilegu skilyrði“ sem fjallað er um í eigendastefnunni yrðu fyrir hendi, hvort þau væru jafnvel til staðar núna eða hvort þess væri vænst að þau yrðu til staðar fyrir lok þessa kjörtímabils.

Bjarni segir þetta sama orðalag og var notað í eldri eigendastefnu frá 2017 um Íslandsbanka. „Að þessu leyti er því ekki verið að gera breytingu,“ segir Bjarni og bætir því við að samkvæmt lögum sé það hlutverk Bankasýslu ríkisins að gera tillögu til ráðherra um meðferð hlutarins.

„Það ræðst af mati á markaðsaðstæðum hverju sinni hvernig staðið verður að undirbúningi slíkrar sölu og hvaða aðferðafræði þykir henta best til að gæta að lagaskilyrðum og hagsmunum ríkisins,“ segir Bjarni.

Allur Íslandsbanki seldur fyrst

Sem áður segir var ný eigendastefna fyrir fjármálafyrirtæki sem ríkissjóður á hlut í kynnt á vef fjármálaráðuneytisins í gær og hefur hún þegar tekið gildi. Þar segir að ekki verði tekin ákvörðun um söluferli á hlutum ríkisins í Landsbankanum „fyrr en eftir að ríkið hefur selt allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka“.

Í eigendastefnunni segir einnig að stefnt sé að því að ríkið eigi verulegan eignarhlut í Landsbankanum til langframa. „Markmiðið með eignarhaldinu er að stjórnvöld hafi ráðandi ítök í a.m.k. einni fjármálastofnun sem þjónustar almenning og fyrirtæki og hefur höfuðstöðvar hér á landi. Þannig tryggja stjórnvöld að almenn, vönduð og traust fjármálaþjónusta standi öllum til boða óháð m.a. búsetu. Markmiðið með eignarhaldinu er enn fremur að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu, ásamt því að tryggja nauðsynlega og áreiðanlega innviði þess.“

Þá er stefnt að sölu minnihluta ríkisins í Sparisjóði Austurlands „við fyrsta hentugleika og þegar það er hagstætt“.

Endurskoðuð eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert