Ítölum verið vísað á dyr hérlendis

Ferðamenn í höfuðborginni.
Ferðamenn í höfuðborginni. mbl.is/Eggert

Tveimur ítölskum ferðamönnum, hjónum um sjötugt, var neitað um afgreiðslu í verslun á Suðurlandi í gær. Þetta segir Ítalinn Marco Di Marco, sem búið hefur á Íslandi síðan árið 2018 og starfar sem leiðsögumaður, en ferðamennirnir tveir voru í sautján manna hópi undir hans leiðsögn.

Atvikið átti sér stað eftir að rúta ferðamannanna hafði áð á fjölförnum viðkomustað á Suðurlandi. Að sögn Marco varð ljóst um leið og ferðamennirnir tveir sneru um borð í rútuna að eitthvað amaði að.

„Ég spurði þau hvað gerst hefði og hjónin sögðu svo frá, að þau hefðu verið stöðvuð um leið og þau gengu inn í búðina, og spurð hvaðan þau væru,“ segir Marco í samtali við mbl.is.

„Þau svöruðu: „Við erum frá Ítalíu,“ og fengu um leið viðkvæðið: „Nei, nei, nei, Ítalir eru ekki leyfðir hér. Vinsamlegast farið út.““

Uppfærsla: mbl.is hefur haft samband við verslunina sem um ræðir og þaðan fengust þau svör að fólkinu hefði verið vísað út vegna þess að verslunin var ekki búin að opna eftir málningarvinnu, en ekki sökum þess að þau eru ítölsk.

Tekið eftir augngotum

Hjónin hafi verið sjáanlega sár eftir þessar móttökur. 

„Þau voru auðvitað sorgmædd vegna þessa,“ segir hann.

Marco Di Marco hefur búið á Íslandi síðan árið 2018.
Marco Di Marco hefur búið á Íslandi síðan árið 2018.

Aðspurður segir hann atvikið það eina sem hann viti af á Íslandi, þar sem ítalskir ferðamenn hafi fengið slæmar viðtökur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi.

„En maður hefur tekið eftir augngotum á áningarstöðum, þegar viðstaddir heyra hvaða tungumál er talað.“

Hann bendir á að þetta sé einnig til umræðu á Ítalíu um þessar mundir, það er breytt viðhorf heimamanna til ítalskra ferðalanga um heim allan.

Framtíðin í uppnámi

Marco segist eiga von á öðrum hópi ferðamanna frá Ítalíu 13. mars. Það sé nú í uppnámi í ljósi fyrirmæla íslenskra stjórnvalda, sem skilgreint hafa alla Ítalíu sem áhættusvæði.

„Ég veit ekki hvað á eftir að gerast. Vonandi skýrast aðstæður á þeim tíma. En ef satt skal segja er ég hræddari við efnahagslegar afleiðingar veirunnar heldur en veiruna sjálfa,“ segir Marco.

„Ég er frá Sikiley, þar sem 80% gistinátta fyrir sumarið hafa verið afbókuð. Þetta er meiri háttar vandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert