Hefur trú á að um tímabundið ástand sé að ræða

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist trúa því að um tímabundið ástand sé að ræða og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlar að ráðast í til að mæta efnahagslegum áhrifum af útbreiðslu kórónuveirunnar muni gagnast til að brúa bilið fyrir fyrirtæki sem lendi í rekstrarerfiðleikum. Segir hann að sú aðgerð, að veita fyrirtækjum greiðslufrest á opinberum gjöldum, sé aðgerð sem hvatt hafi verið til alþjóðlega og hafi áður verið beitt hér á landi.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar er meðal annars horft til þess að fella tímabundið niður tekjuöflun sem sé íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og sérstaklega nefnt að gistináttaskattur verði afnuminn tímabundið. Bjarni ræddi við mbl.is eftir kynningarfundinn í hádeginu. Spurður hvort til skoðunar væri að fella frekari gjöld niður sagði hann að það væri allt opið og þörfin verði metin nákvæmlega eftir samtal við atvinnulífið.

Ríkisstjórnin ætlar einnig að fara af stað með mikið markaðsátak þegar aðstæður skapast til að kynna Ísland sem áfangastað. „Alveg augljóst að ferðum til Íslands mun fækka,“ segir Bjarni, en ríkið hefur verið í sambandi við ferðaþjónustugeirann í gegnum stjórnstöð ferðamála. Hann segir að ekki hafi verið fundað sérstaklega með Icelandair, en flugfélagið hefur nú í tvígang tilkynnt að fella eigi niður ferðir í mars og apríl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert